Gísla saga Súrssonar

1. kafli

Það er upphaf á sögu þessari að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri réð fyrir Noregi og var þetta á ofanverðum hans dögum. Þorkell hét maður; hann var kallaður skerauki; hann bjó í Súrnadal og var hersir að nafnbót. Hann átti sér konu er Ísgerður hét og sonu þrjá barna; hét einn Ari, annar Gísli, þriðji Þorbjörn, hann var þeirra yngstur, og uxu allir upp heima þar.

Maður er nefndur Ísi; hann bjó í firði er Fibuli heitir á Norðmæri; kona hans hét Ingigerður en Ingibjörg dóttir. Ari, sonur Þorkels Sýrdæls, biður hennar og var hún honum gefin með miklu fé. Kolur hét þræll er í brott fór með henni.

Maður hét Björn hinn blakki og var berserkur; hann fór um land og skoraði á menn til hólmgöngu ef eigi vildu hans vilja gera. Hann kom um veturinn til Þorkels Sýrdæls; Ari, sonur hans, réð þá fyrir búi. Björn gerir Ara tvo kosti, hvort hann vill heldur berjast við hann í hólmi þeim er þar liggur í Súrnadal og heitir Stokkahólmur eða vill hann selja honum í hendur konu sína. Hann kaus skjótt að hann vill heldur berjast en hvorttveggja yrði að skömm, hann og kona hans; skyldi þessi fundur vera á þriggja nátta fresti.

Nú líður til hólmstefnu framan. Þá berjast þeir og lýkur svo að Ari fellur og lætur líf sitt. Þykist Björn hafa vegið til landa og konu. Gísli segir að hann vill heldur láta líf sitt en þetta gangi fram, vill hann ganga á hólm við Björn.

Þá tók Ingibjörg til orða: "Eigi var eg af því Ara gift að eg vildi þig eigi heldur átt hafa. Kolur, þræll minn, á sverð er Grásíða heitir og skaltu biðja að hann ljái þér því að það fylgir því sverði að sá skal sigur hafa er það hefur til orustu."

Hann biður þrælinn sverðsins og þótti þrælnum mikið fyrir að ljá.

Gísli bjóst til hólmgöngu og berjast þeir og lýkur svo að Björn fellur. Gísli þóttist nú hafa unnið mikinn sigur og það er sagt að hann biður Ingibjargar og vildi eigi láta góða konu úr ætt ganga og fær hennar. Nú tekur hann allan fjárhlut og gerist mikill maður fyrir sér. Því næst andast faðir hans og tekur Gísli allan fjárhlut eftir hann. Hann lét drepa þá alla sem með Birni höfðu fylgt.

Þrællinn heimti sverð sitt og vill Gísli eigi laust láta og býður hann fé fyrir. En þrællinn vill ekki annað en sverð sitt og fær ekki að heldur. Þetta líkar þrælnum illa og veitir Gísla tilræði; var það mikið sár. Gísli heggur í móti með Grásíðu í höfuð þrælnum svo fast að sverðið brotnaði en hausinn lamdist og fær hvortveggji bana.

2. kafli

Hér eftir tekur Þorbjörn við fé öllu því er átt hafði faðir hans og bræður tveir. Hann býr í Súrnadal að Stokkum. Hann biður konu þeirrar er Þóra hét og var Rauðs dóttir úr Friðarey og fékk hennar. Þeirra samfarir voru góðar og eigi langar áður en þau gátu börn að eiga. Dóttir þeirra er nefnd Þórdís og var hún elst barna þeirra. Þorkell hét sonur þeirra hinn elsti, annar Gísli, Ari hinn yngsti og vaxa allir upp heima þar. Fundust eigi fremri menn þar í nánd þeirra jafnaldrar. Ara var fóstur fengið með Styrkári, móðurbróður sínum en þeir Þorkell og Gísli voru heima báðir.

Bárður hét maður; hann bjó þar í Súrnadal; hann var ungur maður og hafði nýtekið við föðurarfi sínum.

Kolbjörn hét maður er bjó á Hellu í Súrnadal; hann var ungur maður og hafði nýtekið við föðurarfi sínum.

Það töluðu sumir menn að Bárður fíflaði Þórdísi Þorbjarnardóttur; hún var bæði væn og vitur. Þorbirni hugnaði það illa og kveðst ætla ef Ari væri heima að þá myndi eigi vel gefast.

Bárður kvað ómæt ómaga orð, "og mun eg fara sem áður." Með þeim Þorkatli var vingott og var hann í bragði með honum en Gísla var óþokkað um tal þeirra sem föður hans.

Það er sagt einn tíma að Gísli ræðst í ferð með þeim Bárði og Þorkatli. Hann fór á miðja vega til Grannaskeiðs, svo heitir þar er Bárður bjó, og þá er minnst von var heggur Gísli Bárð banahögg. Þorkell reiddist og kvað Gísla illa gert hafa en Gísli bað bróður sinn sefast, "og skiptum við sverðum og haf þú það sem betur bítur;" hann brá á glens við hann.

Nú sefast Þorkell og sest niður hjá Bárði en Gísli fer heim og segir föður sínum og líkaði honum vel. Aldrei varð síðan jafnblítt með þeim bræðrum og ekki þá Þorkell vopnaskiptið og eigi vildi hann heima þar vera og fór til Hólmgöngu-Skeggja í eyna Söxu, hann var mjög skyldur Bárði, og var hann þar. Hann eggjar mjög Skeggja að hefna Bárðar, frænda síns, en ganga að eiga Þórdísi, systur sína.

Nú fara þeir til Stokka, tuttugu saman, og er þeir komu á bæinn mælir Skeggi til mægða við Þorbjörn, "en til samfara við Þórdísi, dóttur þína."

En Þorbjörn vildi eigi gifta honum konuna. Það var talað að Kolbjörn væri í þingum við Þórdísi. Þótti Skeggja sem hann ylli er hann gat eigi fengið ráðið og fer til fundar við Kolbjörn og býður honum hólmgöngu í eynni Söxu. Hann kveðst koma mundu og sagðist eigi verður að eiga Þórdísi ef hann þyrði eigi að berjast við Skeggja. Þeir Þorkell og Skeggi fóru heim í Söxu og biðu þar hólmstefnunnar við annan mann og tuttugasta.

Og er liðnar voru þrjár nætur fór Gísli og hittir Kolbjörn og spyr hvort hann er búinn til hólmstefnunnar. Kolbjörn svarar og spyr hvort hann skal það til ráðsins vinna.

"Það skaltu eigi segja," segir Gísli.

Kolbjörn segir: "Svo hyggst mér að eg muni eigi það til vinna að berjast við Skeggja."

Gísli biður hann mæla allra manna armastan, "og þótt þú verðir allur að skömm þá skal eg nú þó fara."

Nú fer Gísli við tólfta mann í eyna Söxu. Skeggi kom til hólmsins og segir upp hólmgöngulög og haslar völl Kolbirni og sér eigi hann þar kominn né þann er gangi á hólminn fyrir hann.

Refur hét maður er var smiður Skeggja. Hann bað að Refur skyldi gera mannlíkan eftir Gísla og Kolbirni, "og skal annar standa aftar en annar og skal níð það standa ávallt þeim til háðungar".

Nú heyrði Gísli í skóginn og svarar: "Annað munu húskarlar þínir vinna þarfara og máttu hér þann sjá er þorir að berjast við þig."

Og ganga þeir á hólm og berjast og heldur skildi hvor fyrir sig. Skeggi hefur sverð það er Gunnlogi hét og heggur með því til Gísla og gall við hátt. Þá mælti Skeggi:

Gall Gunnlogi,
gaman vas Söxu.

Gísli hjó í móti með höggspjóti og af sporðinn skildinum og af honum fótinn og mælti:

Hrökk hræfrakki
hjók til Skeggja.

Skeggi leysti sig af hólmi og gekk ávallt við tréfót síðan. En Þorkell fór nú heim með Gísla bróður sínum og var nú mjög vel í frændsemi þeirra og þykir Gísli mikið hafa vaxið af þessum málum.

3. kafli

Bræður tveir eru nefndir; hét annar Einar en annar Árni, synir Skeggja úr Söxu; þeir bjuggu á Flyðrunesi, norður frá Þrándheimi. Þeir eflast að liði eftir um vorið og fara í Súrnadal til Kolbjarnar og bjóða honum tvo kosti, hvort hann vill heldur fara með þeim og brenna inni Þorbjörn og sonu hans eða láta þar líf. Hann kjöri heldur að fara.

Fara þeir nú þaðan sex tugir manna og koma á Stokka um nótt og bera eld að húsum. En þau voru öll í svefni í skemmu einni, Þorbjörn og synir hans og Þórdís. Þar voru inni sýruker tvö í því húsi. Nú taka þeir Gísli hafurstökur tvær og drepa þeim í sýrukerin og verjast svo eldinum og slökkva svo þrisvar þar fyrir þeim eldinn og þá eftir fengu þeir Gísli brotið vegginn og komast svo á brott, tíu saman, og fylgdu reyk til fjalls og komust svo brott úr hunda hljóðum; en tólf menn brunnu þar inni. En þeir þykjast öll þau inni hafa brennt er til komu.

En þau Gísli fara uns þau koma í Friðarey til Styrkárs og eflast þaðan að liði og fá fjóra tugi manna og koma á óvart til Kolbjarnar og brenna hann inni við tólfta mann; selja nú lönd sín og kaupa sér skip og voru á sex tugir manna og fara á brott með allt sitt og koma við eyjar þær er Æsundir heita og liggja þar til hafs.

Nú fara þeir þaðan á tveimur bátum fjórir tugir manna og koma norður til Flyðruness. Þeir bræður, Skeggjasynir, voru þá á leið komnir við níunda mann að heimta landskyldir sínar. Þeir Gísli snúa til móts við þá og drepa þá alla; Gísli vó þrjá menn en Þorkell tvo. Eftir það ganga þeir til bæjar og taka þaðan á brott mikið fé. Gísli hjó þá höfuð af Hólmgöngu-Skeggja því að hann var þá þar hjá sonum sínum.

4. kafli

Síðan fara þeir til skips og láta í haf og eru úti aukið hundrað dægra og koma að hafi vestur í Dýrafjörð á syðri strönd í ós þann er Haukadalsós heitir.

Tveir menn eru nefndir og bjó á sinni ströndinni hvor, Þorkatlar tveir. Annar bjó á Saurum í Keldudal á hinni syðri strönd, þar var Þorkell Eiríksson, en annar bjó á nyrðri strönd í Alviðru, hann var kallaður Þorkell auðgi. Þorkell fór fyrstur virðingarmanna til skips og hitti Þorbjörn súr því að hann var svo kallaður síðan hann varðist með sýrunni. Öll lönd voru þá ónumin á hvorritveggja strönd. Nú keypti Þorbjörn súr land á hinni syðri strönd, á Sæbóli í Haukadal. Þar gerði Gísli bæ og búa þar síðan.

Bjartmar hét maður er bjó í Arnarfirði inni í botni en kona hans hét Þuríður og var Hrafns dóttir af Ketilseyri úr Dýrafirði en Hrafn var sonur Dýra er fjörðinn nam. Þau áttu sér börn: hét dóttir þeirra Hildur, hún var elst barna þeirra; Helgi hét sonur þeirra, Sigurður og Vestgeir.

Vésteinn hét Austmaður einn er út kom um landnám og vistaðist með Bjartmari. Hann gengur að eiga Hildi, dóttur hans. Og er þau höfðu eigi lengi ásamt verið, gátu þau tvö börn að eiga; Auður hét dóttir þeirra en Vésteinn sonur.

Vésteinn austmaður var Végeirsson, bróðir Vébjarnar Sygnakappa. Bjartmar var son Áns rauðfels Grímssonar loðinkinna, bróður Örvar-Odds, Ketilssonar hængs sonar Hallbjarnar hálftrölls. Móðir Áns Rauðfelds var Helga dóttir Áns bogsveigis.

Vésteinn Vésteinsson gerðist fardrengur góður, þó átti hann bú í Önundarfirði undir Hesti þá er hér var komið sögunni; kona hans hét Gunnhildur, Bergur hét sonur hans og Helgi.

Nú eftir þetta andast Þorbjörn súr og Þóra kona hans. Nú tekur Gísli og Þorkell bróðir hans við búinu en þau Þorbjörn og Þóra voru í haug lögð.

5. kafli

Þorbjörn hét maður og var kallaður selagnúpur; hann bjó í Tálknafirði að Kvígandafelli; Þórdís hét kona hans en Ásgerður dóttir. Þessarar konu biður Þorkell Súrsson og getur hana að eiga en Gísli Súrsson bað systur Vésteins, Auðar Vésteinsdóttur, og fékk hana; búa nú báðir saman í Haukadal.

Eitthvert vor átti Þorkell hinn auðgi Þórðarson, Víkingssonar, för suður til Þórsnessþings og fylgdu honum Súrssynir. Í Þórsnesi bjó þá Þorsteinn þorskabítur, Þórólfsson Mostraskeggs; hann átti Þóru Ólafsdóttur, Þorsteinssonar, börn þeirra voru þau Þórdís og Þorgrímur og Börkur hinn digri. Þorkell lauk málum sínum á þinginu.

En eftir þingið bauð Þorsteinn heim Þorkatli auðga og Súrssonum og gaf þeim góðar gjafir að skilnaði en þeir buðu heim Þorsteinssonum vestur þangað annað vor til þings. Og nú fara þeir heim. En að öðru vori fara þeir vestur þangað, Þorsteinssynir, tólf saman, til Hvolseyrarþings og hittast þeir þar, Súrssynir. Bjóða þeir þá Þorsteinssonum heim af þinginu en áður skyldu þeir vera að heimboði hjá Þorkatli auðga, eftir það fara þeir til Súrssona og þiggja þar veislu góða.

Þorgrími líst systir þeirra bræðra væn og biður hennar og því næst er hún honum föstnuð og er þá þegar gert brúðkaupið og fylgir henni heiman Sæból og réðst Þorgrímur vestur þangað en Börkur er eftir í Þórsnesi og hjá honum systursynir hans, Saka-Steinn og Þóroddur.

Nú býr Þorgrímur á Sæbóli en þeir Súrssynir fara á Hól og reisa þar góðan bæ og liggja þar saman garðar á Hóli og Sæbóli. Nú búa þeir þar hvorir og er vinfengi þeirra gott. Þorgrímur hefur goðorð og er þeim bræðrum að honum styrkur mikill.

Þeir fara nú til vorþings eitt vor með fjóra tugi manna og voru allir í litklæðum. Þar var í för Vésteinn, mágur Gísla, og allir Sýrdælir.

6. kafli

Gestur hét maður og var Oddleifsson; hann var kominn til þings og var í búð hjá Þorkatli auðga. Nú sitja þeir við drykkju, Sýrdælir, en aðrir menn voru að dómum því að sóknarþing var.

Þá kemur maður inn í búð þeirra Haukdæla, gassi mikill, er Arnór hét og mælti: "Allmikið er um yður Haukdæla er þér gáið einskis annars en að drekka en viljið eigi koma til dóma þar sem þingmenn yðar eiga málum við að skiptast og þykir svo öllum þótt eg kveði upp."

Þá mælti Gísli: "Göngum þá til dóma; kann vera að þetta mæli fleiri."

Ganga þeir nú til dóma og spyr Þorgrímur ef nokkrir væru þeir menn er þyrftu þeirra liðveislu; "og skal ekki eftir liggja það sem vér megum þeim veita meðan vér erum uppi sem vér heitum voru liði."

Þá svarar Þorkell hinn auðgi: "Lítils eru mál þessi verð er menn eiga hér við að skiptast en vér munum yður til segja ef vér þurfum yðar liðveislu."

Og nú finnst mönnum orð um hve skrautlegur flokkur þeirra var eða um málsenda þeirra hversu skörulegir voru.

Þorkell mælti þá til Gests: "Hve lengir ætlar þú að kapp þeirra Haukdæla og yfirgangur muni vera svo mikill?"

Gestur svarar: "Eigi munu þeir allir samþykkir hið þriðja sumar er þar eru nú í þeim flokki."

En Arnór var hjá þessu þeirra tali og hleypur inn í búð þeirra Haukdæla og segir þeim þessi orð.

Gísli svarar: "Hér mun hann mælt mál talað hafa. En vörumst vér að eigi verði hann sannspár; enda sé eg gott ráð til þessa að vér bindum vort vinfengi með meiri fastmælum en áður og sverjumst í fóstbræðalag fjórir."

En þeim sýndist þetta ráðlegt. Ganga nú út í Eyrarhvolsodda og rista þar upp úr jörðu jarðarmen svo að báðir endar voru fastir í jörðu og settu þar undir málaspjót, það er maður mátti taka hendi sinni til geirnagla. Þeir skyldu þar fjórir undir ganga , Þorgrímur, Gísli, Þorkell og Vésteinn. Og nú vekja þeir sér blóð og láta renna saman dreyra sinn í þeirri moldu er upp var skorin undan jarðarmeninu og hræra saman allt moldina og blóðið; en síðan féllu þeir allir á kné og sverja þann eið að hver skal annars hefna sem bróður síns og nefna öll goðin í vitni.

Og er þeir tókust í hendur allir þá mælti Þorgrímur: "Ærinn vanda hef eg þótt eg geri þetta við þá báða, Þorkel og Gísla, mága mína, en mig skyldir ekki til við Véstein." og hnykkir hendi sinni.

"Svo munum vér þá fleiri gera," segir Gísli og hnykkir og sinni hendi, "og skal eg eigi binda mér vanda við þann mann er eigi vill við Véstein, mág minn."

Nú þykir mönnum um þetta mikils vert. Gísli mælti þá til Þorkels bróður síns: "Nú fór sem mig grunaði og mun þetta fyrir ekki koma sem nú er að gert; get eg og að auðna ráði nú um þetta."

Fara nú menn heim af þinginu.

7. kafli

Það bar til tíðinda um sumarið að skip kom út í Dýrafirði og áttu bræður tveir, norrænir menn; hét annar Þórir en annar Þórarinn og voru víkverskir menn að kyni. Þorgrímur reið til skips og keypti fjögur hundruð viðar og gaf sumt verðið þegar í hönd en sumt á frest. Nú setja kaupmenn upp skip sitt í Sandaósi og taka sér síðan vistir.

Oddur er maður nefndur og var Örlygsson; hann bjó á Eyri í Skutulsfirði; hann tók við stýrimönnum. Nú sendir Þorgrímur Þórodd son sinn að bera saman við sinn og telja því að hann ætlaði heim að flytja bráðlega. Og kemur hann til og tekur viðinn og ber saman og þykir þó nokkuð annan veg um kaup þeirra en Þorgrímur hafði frá sagt. Mælti hann þá illa við Austmennina en þeir stóðust það eigi og vinna að honum og vega hann.

Síðan fara Austmenn frá skipi eftir verk þetta. Þeir fara um Dýrafjörð og fá sér hesta og vilja ná til vistar sinnar. Þeir fara dag þann og um nóttina uns þeir koma í dal þann er gengur upp af Skutilsfirði og eta þar dögurð og fara að sofa síðan.

Nú eru Þorgrími sögð tíðindi þessi og býst hann þegar heiman og lætur flytja sig yfir fjörð og fer eftir þeim einn saman. Hann kemur að þeim þar sem þeir lágu og vekur Þórarin, stingur á honum spjótskafti sínu. En hann hleypur upp við og vill taka til sverðs síns því að hann kenndi Þorgrím. En Þorgrímur leggur á honum með spjóti og vegur hann. Nú vaknar Þórir og vill hefna félaga síns. En Þorgrímur leggur hann spjóti í gegnum. Þar heitir nú Dögurðardalur og Austmannafall. Eftir þetta fer Þorgrímur heim og verður nú frægur af ferð þessari. Situr hann nú í búi sínu um veturinn.

En um vorið búa þeir mágar, Þorgrímur og Þorkell, skip þar er Austmennirnir höfðu átt. Austmenn þessir voru óeirðarmenn miklir í Noregi og höfðu átt þar óvært. Nú búa þeir skip þetta og fara utan. Það sumar fara og utan Vésteinn og Gísli í Skeljavík í Steingrímsfirði. Og láta hvorirtveggja í haf. Önundur úr Meðaldal ræður fyrir búi þeirra Þorkels og Gísla en Saka-Steinn fyrir með Þórdísi á Sæbóli.

Og er nú þetta er tíðinda réð Haraldur gráfeldur fyrir Noregi. Þeir Þorgrímur og Þorkell koma norðarlega að við Noreg skipi sínu og hitta konung brátt og ganga fyrir hann og kveðja hann vel. Konungur tók þeim vel og gerðust þeir honum handgengnir og verður þeim gott til fjár og virðingar.

Þeir Gísli og Vésteinn voru úti meir en hundruð dægra og sigla um veturnáttaskeið að Hörðalandi í miklu fjúki og ofviðri um nótt, brjóta skipið í spón en halda fé sínu og mönnum.

8. kafli

Maður hét Skegg-Bjálfi og átti skip í förum. Hann ætlaði til Danmerkur suður. Þeir fala að honum skipið hálft en hann kveðst spurt hafa að þeir voru góðir drengir og gaf þeim hálft skipið og launa þeir þegar meir en fullu.

Nú fara þeir suður til Danmerkur og í þann kaupstað er í Vébjörgum heitir og eru þeir þar um veturinn með þeim manni er Sigurhaddur hét. Þeir voru þar þrír, Vésteinn, Gísli og Bjálfi og var gott vinfengi með þeim öllum og gjafaskipti. En snemma um vorið bjó Bálfi skip sitt til Íslands.

Maður hét Sigurður, félagi Vésteins, norrænn að ætt og var þá á Englandi vestur. Hann sendi Vésteini orð og kveðst vilja slíta félag við hann og þóttist eigi þurfa hans fjár lengur. Og nú biður Vésteinn leyfis að hann færi að hitta hann.

"Því skaltu heita mér að þú farir aldrei brott af Íslandi ef þú kemur heill út nema eg leyfi þér."

Nú játar Vésteinn því.

Og einn morgun rís Gísli upp og gengur að smiðju; hann var allra manna hagastur og ger að sér um alla hluti. Hann gerði pening, þann er eigi stóð minna en eyri og hnitar saman peninginn og eru tuttugu naddar á, tíu á hvorum hlutnum, og þykir sem heill sé ef saman er lagður og má þó taka í sundur í tvo hluti.

En frá því er sagt að hann tekur í sundur peninginn og selur annan hlut í hendur Vésteini og biður þá þetta hafa til jartegna, og "skulum við þetta því aðeins sendast á milli að líf annars hvors okkar liggi við. En mér segir svo hugur um að við munum þurfa að sendast á milli þó að við hittumst eigi sjálfir."

Nú fer Vésteinn vestur til Englands en þeir Gísli og Bjálfi til Noregs og út um sumarið til Íslands og varð gott til fjár og góðrar sæmdar og skildu vel sitt félag og kaupir nú Bjálfi skip hálft að Gísla.

Nú fer Gísli vestur í Dýrafjörð á byrðingi einum við tólfta mann.

9. kafli

Nú búa þeir skip sitt í öðrum stað, Þorgrímur og Þorkell, og koma út hingað í Haukadalsárós í Dýrafjörð þann sama dag sem Gísli hafði áður inn siglt byrðingnum. Nú hittast þeir brátt og verður þar fagnafundur og fara nú hvorirtveggja til eigna sinna. Hefur þeim og gott til fjár orðið, Þorgrími og Þorkatli.

Þorkell var ofláti mikill og vann ekki fyrir búi þeirra en Gísli vann nótt með degi.

Það var einn góðan veðurdag að Gísli lét alla menn vinna heyverk nema Þorkell, hann var einn heima karla á bænum og hafði lagst niður í eldhúsi eftir dögurð sinn. Eldhúsið var tírætt að lengd en tíu faðma breitt en utan og sunnan undir eldhúsinu stóð dyngja þeirra Auðar og Ásgerðar og sátu þær þar og saumuðu. En er Þorkell vaknar gengur hann til dyngjunnar því að hann heyrði þangað mannamál og leggst þar niður hjá dyngjunni.

Nú tekur Ásgerður til orða. "Veittu mér það að þú sker mér skyrtu, Auður, Þorkatli bónda mínum."

"Það kann eg eigi betur en þú," sagði Auður, "og myndir þú eigi mig til biðja ef þú skyldir skera Vésteini bróður mínum skyrtuna."

"Eitt er það sér," segir Ásgerður, "og svo mun mér þykja nokkra stund."

"Löngu vissi eg það," segir Auður, "hvað við sig var og ræðum ekki um fleira."

"Það þykir mér eigi brigsl," sagði Ásgerður, "þótt mér þyki Vésteinn góður. Hitt var mér sagt að þið Þorgrímur hittust mjög oft áður en þú værir Gísla gefin."

"Því fylgdu engir mannlestir," segir Auður, "því að eg tók engan mann undir Gísla að því fylgdi neinn mannlöstur; og munum við nú hætta þessari ræðu."

En Þorkell heyrir hvert orð og það er þær mæltu og tekur nú til orða er þær hættu:

"Heyr undr mikit,
heyr örlygi,
heyr mál mikit,
heyr manns bana,
eins eða fleiri,"

og gengur inn eftir það.

Þá tekur Auður til orða: "Oft stendur illt af kvennahjali og má það vera að hér hljótist af í verra lagi og leitum okkur ráðs."

"Hugað hef eg mér ráð," segir Ásgerður, "það er hlýða mun en ekki sé eg fyrir þína hönd."

"Hvert er það?" kvað Auður.

"Leggja upp hendur um háls Þorkatli er við komum í rekkju og mun hann þetta fyrirgefa mér og segja þá lygi."

"Eigi mun því einu mega fyrir hlíta," segir Auður.

"Hvert úrræði muntu taka?" segir Ásgerður.

"Segja Gísla bónda mínum allt það er eg á vant að ræða eða af að ráða."

Um aftaninn kemur Gísli heim af verkinu. Það var vant að Þorkell var vanur að þakka bróður sínum verkið en nú er hann hljóður og mælti ekki orð. Nú spyr Gísli hvort honum sé þungt.

"Engar eru sóttir á mér," segir Þorkell, "en sóttum verra er þó."

"Hef eg nokkuð þess gert," segir Gísli, "að þér þyki við mig að?"

"Sá er enginn hlutur," segir Þorkell, "og muntu þess vís verða þó að síðar sé."

Og gengur nú sinn veg hvor þeirra og varð ekki talað fleira að sinni. Þorkell neytir lítt matar um kveldið og gengur fyrstur manna að sofa.

Og er hann var kominn í rekkju þá kemur þar Ásgerður og lyftir klæðum og ætlar niður að leggjast.

Þá tók Þorkell til orða: "Ekki ætla eg þér hér að liggja náttlangt né lengra banni."

Ásgerður mælti: "Hví hefur svo skjótt skipast eða hvað ber til þess?" segir Ásgerður.

Þorkell mælti: "Bæði vitum við nú sökina þótt eg hafi lengi leyndur verið og mun þinn hróður ekki að meir þó að eg mæli berara."

Hún svarar: "Þú munt ráða verða hugleiðing þinni um þetta en ekki mun eg lengi þæfast til hvílunnar við þig og um tvo kosti áttu að velja. Sá er annar að þú tak við mér og lát sem ekki sé í orðið . Ella mun eg nefna mér votta nú þegar og segja skilið við þig og mun eg láta föður minn heimta mund minn og heimanfylgju og mun sá kostur að þú hafir aldrei hvíluþröng af mér síðan."

Þorkell þagnaði og mælti um síðir: "Það ræð eg að þú ger hvort þér líkar en eigi mun eg banna rekkjuna náttlangt."

Hún lýsti brátt yfir því hvor henni þótti betri og fer þegar í rekkju sína. Eigi hafa þau lengi bæði saman legið áður en þau semja þetta með sér svo sem ekki hefði í orðið.

Auður kom nú í rekkju hjá Gísla og segir honum ræður þeirra Ásgerðar og biður af sér reiði og bað hann taka nokkuð gott ráð ef hann sæi.

"Eigi sé eg hér ráð til," sagði hann, "það sem duga mun. En þó mun eg ekki kunna þig um þetta því að mæla verður einnhver skapanna málum og það mun fram koma sem auðið verður."

10. kafli

Nú líða misserin af hendi og kemur að fardögum. Þá heimtir Þorkell Gísla bróður sinn á tal við sig og mælti: "Svo er háttað, frændi," segir hann, "að mér er ráðabreytni nokkur í hug og í skapi; en því víkur svo við að eg vil að við skiptum fé okkar og vil eg ráðast til búlags með Þorgrími, mági mínum."

Gísli svarar: "Saman er bræðra eign best að líta og að sjá; að vísu er mér þökk á að kyrrt sé og skiptum engu."

"Ekki má svo lengur fram fara," segir Þorkell, "að við eigum búlag saman því að á því verður stórmikill skaði þar sem þú hefur jafnan einn haft önn og erfiði fyrir búinu en eg tek til einskis höndum, þess sem þrifnaður sé í."

"Tel þú nú ekki að því," segir Gísli, "meðan eg geri ekki orð á; höfum við nú hvorttveggja reynt að margt hefur verið um með okkur og fátt."

Þorkell mælti: "Ekki er undir hvað um er talað, skipta skal fénu að vísu; og fyrir því að eg beiði skiptis þá skaltu hafa bólstað og föðurleifð okkar en eg skal hafa lausafé."

"Ef ekki skal öðru við koma en við skiptum þá ger þú annaðhvort því að eg hirði eigi hvort eg geri að skipta eða kjósa."

Svo lauk að Gísli skipti en Þorkell kaus lausafé en Gísli hefur land. Þeir skiptu og ómegð; það voru börn tvö; hét sveinninn Geirmundur en Guðríður mærin og var hún með Gísla en Geirmundur með Þorkatli. Fer Þorkell til Þorgríms mágs síns og býr við hann; en Gísli hafði bú eftir og saknar einskis í að nú sé búið verra en áður. Og líður nú svo sumarið og kemur að veturnóttum.

Það var þá margra manna siður að fagna vetri í þann tíma og hafa þá veislur og veturnáttablót en Gísli lét af blótum síðan hann var í Vébjörgum í Danmörku en hann hélt þó sem áður veislum og allri stórmennsku. Og nú aflar hann til veislu mikillar þá er svo líður stundum sem áður var getið. Hann býður til veisluþeim báðum nöfnum, Þorkatli Eiríkssyni og Þorkatli auðga og mágum sínum, Bjartmarssonum og mörgum öðrum vinum og félögum.

Og þann dag er menn koma þar tekur Auður til orða: "Það er satt að segja að nú þykir mér eins manns vant, þess er eg vildi að hér væri."

"Hver er sá?" kvað Gísli.

"Það er Vésteinn, bróðir minn; hann myndi eg kjósa til að njóta hér fagnaðar með oss."

Gísli mælti: "Annan veg er mér þetta gefið því eg vildi gjarna gefa til að hann kæmi hér nú eigi."

Og fellur þetta þeirra tal þar niður.

11. kafli

Maður hét Þorgrímur og var kallaður nef. Hann bjó á Nefsstöðum fyrir innan Haukadalsá. Hann var fullur af gerningum og fjölkynngi og var seiðskratti sem mestur mátti verða. Honum bjóða þeir Þorgrímur og Þorkell til sín því að þeir höfðu þar og boð inni. Þorgrímur var hagur á járn og er þess við getið að þeir ganga til smiðju, báðir Þorgrímarnir og Þorkell, og síðan byrgja þeir smiðjuna. Nú eru tekin Grásíðubrot er Þorkell hafði hlotið úr skiptinu þeirra bræðra og gerir Þorgrímur þar af spjót og var það algert að kveldi; mál voru í og fært í hefti spannar langt. Nú verður þar að hvílast.

Frá því er sagt að Önundur úr Meðaldal kom til boðs að Gísla og bregður honum á einmæli og sagði að Vésteinn væri út kominn, "og er hans hingað von."

Gísli bregður við skjótt og kallar til sín húskarla sína, Hallvarð og Hávarð, og bað þá fara norður í Önundarfjörð og hitta Véstein, "og bera honum kveðju mína og það með að hann sé heima þar til er eg sæki hann heim og komi eigi til boðsins í Haukadal." og selur í hendur þeim knýtiskauta og var þar í peningur hálfur til jartegna ef hann tryði eigi sögu þeirra ella.

Síðan fara þeir og hafa skip úr Haukadal og róa til Lækjaróss og ganga þar á land og til bónda þess er þar bjó á Bessastöðum, hann hét og Bessi. Þeir bera honum orð Gísla að hann léði þeim hesta tvo er hann átti og hétu Bandvettir er skjótastir voru í fjörðum. Hann ljær þeim hestana og ríða þeir uns þeir komu á Mosvöllu og þaðan inn undir Hest.

Nú ríður Vésteinn heiman og ber svo til að þá ríður hann undir melinn hjá Mosvöllum er þeir bræður ríða hið efra og farast þeir hjá á mis.

12. kafli

Þorvarður hét maður er bjó í Holti. Húskarlar hans deildu um verk og hjuggust með ljáum og varð hvorttveggja sár. Kemur Vésteinn til og sættir þá og gerir svo að hvorumtveggja hugnar vel; ríður nú út til Dýrafjarðar og Austmenn, þrír saman.

En þeir koma undir Hest, Hallvarður og Hávarður, og fregna nú hið sanna um ferð Vésteins, riðu nú aftur sem þeir mega. Og er þeir koma til Mosvalla þá sáu þeir mannareið í miðjum dal og var þá leiti í millum þeirra; ríða nú í Bjarnardal og koma til Arnkelsbrekku; þar springa báðir hestarnir. Þeir renna þá af hestunum og kalla. Heyra þeir Vésteinn nú og voru þá komnir á Gemlufallsheiði og bíða nú og hittast þeir og bera upp erindi sín, bera nú fram peninginn, þann er Gísli sendi honum.

Hann tekur nú annan pening úr fégyrðli sínum og roðnar mjög á að sjá. "Satt eitt segið þig," segir hann, "og myndi eg aftur hafa horfið ef þið hefðuð hitt mig fyrr en nú falla vötn öll til Dýrafjarðar og mun eg þangað ríða enda er eg þess fús. Austmenn skulu hverfa aftur. En þig stígið á skip," segir Vésteinn, "og segið Gísla og systur minni þangaðkomu mína."

Þeir fara heim og segja Gísla. Hann svarar. "Svo verður nú að vera."

Vésteinn fer til Gemlufalls til Lútu frændkonu sinnar og lætur hún flytja hann yfir fjörðinn og mælti við hann: "Vésteinn," sagði hún, "vertu var um þig; þurfa muntu þess."

Hann er fluttur til Þingeyrar, þar bjó þá maður er Þorvaldur gneisti hét. Vésteinn gengur þar til húss og lét Þorvaldur honum heimilan hest sinn; ríður hann nú við hrynjandi og hefur sitt söðulreiði. Hann fylgir honum til Sandaóss og bauð að fylgja honum allt til Gísla. Hann kvað eigi þess þurfa.

"Margt hefur skipast í Haukadal," sagði hann, "og vertu var um þig."

Þeir skiljast nú. Ríður Vésteinn nú til þess er hann kemur í Haukadal og var á heiðviðri og tunglskin. En að þeirra Þorgríms þá láta þau inn naut, Geirmundur og kona sú er Rannveig hét; bæsir hún nautin en hann rekur inn að henni. Þá ríður Vésteinn þar um völl og hittir Geirmundur hann. Geirmundur mælti:

"Kom þú ekki hér á Sæból og far til Gísla og ver var um þig."

Rannveig hafði gengið út úr fjósinu, hyggur að manninum og þykist kenna og er nautin voru inn látin, þræta þau um manninn, hver verið hafði og ganga við það heim. Þeir Þorgrímur sitja við eld og spyr Þorgrímur ef þau hefðu nokkuð manna séð eða hitt eða um hvað þau þrættust.

"Eg þóttist kenna að Vésteinn var hér kominn," sagði Rannveig, "og var í blárri kápu og spjót í hendi og reið við hrynjandi."

"En hvað segir þú, Geirmundur?"

"Ógerla sá eg til en húskarl ætla eg Önundar úr Meðaldal og var í kápu Gísla en söðulreiði Önundar og í hendi fiskistöng og veðrar af upp.

"Nú mun ljúga annað hvort ykkar," sagði Þorgrímur, "og far þú, Rannveig, á Hól og vit hvað þar er títt."

Nú fór hún og kom til dyra er menn voru komnir til drykkju. Gísli var í dyrum úti og heilsaði henni og bauð henni þar að vera.

Hún kveðst heim skyldu, "og vildi eg hitta Guðríði mey."

Gísli kallar á hana og varð ekki að erindum.

"Hvar er Auður, kona þín?" segir hún.

"Hér er hún," segir Gísli.

Hún gengur út og spurði hvað hún vildi. Hún kvað smá erindi ein og komust engin upp. Gísli bað hana gera annað hvort, vera þar eða fara heim. Hún fór heim og var þá nokkru heimskari en áður ef á mætti gæða en kunni engin tíðindi að segja.

En eftir um morguninn lét Vésteinn bera að sér töskur tvær er varningur var í og þeir bræður höfðu með farið, Hallvarður og Hávarður. Hann tók þar úr refil sextugan að lengd og höfuðdúk, tuttugu álna langan og ofið í glit af gulli í þrem stöðum, og mundlaugar þrjár, fáðar með gulli. Þetta bar hann fram og gaf systur sinni, Gísla og Þorkatli, svarabróður sínum, ef hann vildi þiggja. Gísli gengur og Þorkatlar tveir á Sæból til Þorkels bróður síns. Segir Gísli að Vésteinn var þar kominn og hann hefur gefið þeim báðum saman gripina og sýnir honum og biður hann af hafa slíkt er hann vill.

Þorkell svarar: "Þó værir þú maklegur þó að þú eignaðist alla og vil eg eigi þiggja gripina; eigi eru launin sýnni en svo."

Og vill hann víst eigi þiggja. Nú fer Gísli heim og þykir honum um allt einn veg á horfast.

13. kafli

Nú bar það til nýlundu á Hóli að Gísli lætur illa í svefni tvær nætur í samt og spyrja menn hvað hann dreymdi . Hann vill eigi segja drauma sína.

Nú kemur hin þriðja nóttin og fara menn til rekkna sinna og er menn höfðu sofið svefn kemur bylur á húsið, svo mikill, að af tekur þekjuna alla öðrum megin af húsinu. Það fylgdi þessu að vatn féll úr himni svo mikið að það var með ódæmum og tóku húsin að drjúpa sem líklegt var er þakið tók að rofna.

Gísli spratt upp skjótt og heitir á menn sína að skýli. En þræll einn var með Gísla sá er Þórður hét og kallaður hinn huglausi. Þrællinn var heima en Gísli fór og nær allir mennirnir með honum til heyjanna að duga þeim við. Vésteinn bauð að fara með þeim en Gísli vill eigi það. Og nú er mest tóku að drjúpa húsin þá snúa þau systkin rekkjum sínum um endilangt húsið; en allir menn aðrir voru brott flýðir úr húsinu nema þau tvö ein.

Nú er gengið inn nokkuð fyrir lýsing, hljóðlega, og þangað að sem Vésteinn hvílir. Hann var þá vaknaður. Eigi finnur hann fyrr en hann er lagður spjóti fyrir brjóstið svo að stóð í gegnum hann.

En er Vésteinn fékk lagið þá mælti hann þetta: "Hneit þar," sagði hann.

Og því næst gekk maðurinn út. En Vésteinn vildi upp standa; í því fellur hann niður fyrir stokkinn, dauður. Auður vaknar við og kallar á Þórð hinn huglausa og biður hann taka vopnið úr undinni. Það var þá mælt að sá væri skyldur að hefna er vopni kippti úr sári; en það voru kölluð launvíg en eigi morð ef menn létu vopn eftir í beninni standa. Þórður var svo líkblauður maður að hann þorði hvergi í nánd að koma.

Gísli kom þá inn og sá hver efni í voru og bað Þórð vera kyrran. Hann tók sjálfur spjótið úr sárinu og kastaði alblóðugu í örk eina og lét engan mann sjá og settist á stokkinn. Síðan lét hann búa um lík Vésteins eftir þeirri siðvenju er þá var í þann tíma. Vésteinn var mjög harmdauða bæði Gísla og öðrum mönnum.

Þá mælti Gísli til Guðríðar, fóstru sinnar: "Þú skalt fara á Sæból og vita hvað menn hafast þar að; sendi eg þig fyrir því þangað að eg trúi þér best um þetta og annað og kunn að segja mér hvað menn hafast þar að."

Hún fer og kemur á Sæból. Þeir voru upp risnir og sátu með vopnum, Þorgrímar tveir og Þorkell. Og er hún kom inn var henni heilsað óbrátt því að fólk var flest fámálugt. Þó spyr Þorgrímur hana tíðinda. Hún sagði víg Vésteins eða morð.

Þorkell svarar: "Tíðindi myndi okkur það hafa þótt eina stund."

"Sá maður er þar látinn," segir Þorgrímur, "er vér erum allir skyldir til virðing að veita og gera hans útferð sem sæmilegasta og heygja hann; og er það satt að segja að slíkt er mikill mannskaði. Máttu og segja svo Gísla að vér munum þar koma í dag."

Hún fer heim og segir Gísla að Þorgrímur sat með hjálm og sverð og öllum herbúnaði en Þorgrímur nef hafði bolöxi í hendi en Þorkell hafði sverð og brugðið af handfang, "allir menn voru þar upp risnir, sumir með vopnum."

"Slíks var að von," segir Gísli.

14. kafli

Gísli býst nú til að heygja Véstein með allt lið sitt í sandmel þeim er á stenst og Seftjörn, fyrir neðan Sæból. Og er Gísli var á leið kominn þá fara þeir Þorgrímur með marga menn til haugsgerðarinnar.

En þá er þeir höfðu veitt Vésteini umbúnað sem siður var til gekk Þorgrímur að Gísla og mælti: "Það er tíska," segir hann, "að binda mönnum helskó þá er þeir skulu ganga á til Valhallar og mun eg það gera við Véstein."

Og er hann hafði það gert þá mælti hann: "Eigi kann eg helskó að binda ef þessir losna."

Eftir þetta setjast þeir niður fyrir utan hauginn og talast við og láta allólíklega að nokkur viti hver þennan glæp hefur gert.

Þorkell spurði Gísla: "Hversu berst Auður af um bróðurdauðann? Hvort grætur hún mjög?"

"Vita muntu það þykjast," segir Gísli; "hún berst af lítt og þykir mikið. Draum dreymdi mig," segir Gísli, "í fyrri nótt og svo í nótt en þó vil eg eigi á kveða hver vígið hefur unnið en á hitt horfir um draumana. Það dreymdi mig hina fyrri nótt að af einum bæ hrökktist höggormur og hyggi Véstein til bana. En hina síðari nótt dreymdi mig að vargur rynni af sama bæ og biti Véstein til bana. Og sagði eg því hvorugan drauminn fyrr en nú að eg vildi að hvorugur réðist."

Og þá kvað hann vísu:

Betr hugðak þá, brigði
biðkat draums ens þriðja
slíks af svefni vökðum
sárteina, Vésteini,
þás vér í sal sátum
Sigrhadds við mjöð gladdir
komskat maðr á miðli
mín né hans, at víni.

Þorkell spurði þá: "Hversu berst Auður af um bróðurdauðann, hvort grætur hún mjög?"

"Oft spyrð þú þessa, frændi," segir Gísli, "og er þér mikil forvitni á að vita þetta."

Gísli kvað vísu:

Hylr á laun und líni
linnvengis skap kvinna,
gríðar leggs ór góðum.
Gefn, ölkera svefni;
eik berr angri lauka,
eirreks, bráa geira,
bróður, dögg á bæði
blíð öndugi síðan.

Og enn kvað hann:

Hrynja lætr af hvítum
hvarmskógi Gná bógar
hvönn fylvingum hyljar
hlátrbann í kné svanna;
hnetr less, en þreyr þessum,
Þögn, at mærðar Rögni,
snáka túns af sínu
sjónhesli bölgrónu.

Nú ganga þeir bræður heim eftir þetta, báðir saman.

Þá mælti Þorkell: "Mikil tíðindi hafa hér gerst og munu þér verða nokkru meiri tíðindi með harmi en oss; en eigi að síður verður hver með sjálfum sér lengst að fara. Vildi eg að þú létir þér eigi þetta svo mikils fá að menn renni þar af því grunum í; vildi eg að vér tækum upp leika og væri nú svo vel með oss sem þá er best hefur verið."

"Þetta er vel mælt," segir Gísli, "og vil eg það gjarna, og þó með þeim hætti ef nokkuð kann það til að bera á þinni ævi að þér þyki jafnmikið sem mér þykir þetta þá skaltu mér því heita að gera þá með sama hætti sem þú beiðir mig nú."

Þessu játar Þorkell. Síðan fara þeir heim og er þá drukkið erfi eftir Véstein. Og er það er gert fer hver heim til síns heimilis og var nú allt kyrrt.

15. kafli

Tókust nú upp leikar sem ekki hefði í orðið. Eiga þeir mágar oftast leik saman, Gísli og Þorgrímur, og verða menn eigi á sáttir hvor sterkari er en þó ætla flestir Gísla aflameiri. Þeir leika knattleika á tjörn þeirri er Seftjörn heitir; þar var jafnan fjölmennt.

Það var einn dag þá er flesta lagi var komið að Gísli bað jafnlega skipta til leiksins.

"Það viljum vér víst," segir Þorkell, "enda viljum vér að þú sparir þá ekki af við Þorgrím því að það orð flyst af að þú sparist við; en eg ynni þér allvel að þú fengir sem mesta virðing af ef þú ert sterkari."

"Ekki höfum við það reynt hér til," segir Gísli, "en þó má það vera að þar komi að við reynum."

Nú leika þeir og hefur Þorgrímur ekki við, felldi Gísli hann og bar út knöttinn. Þá vill Gísli taka knöttinn en Þorgrímur heldur honum og lætur hann eigi því ná. Þá fellir Gísli svo hart Þorgrím svo að hann hafði ekki við og af gekk skinnið af hnúunum en blóð stökk úr nösunum; af gekk og kjötið af knjánum.

Þorgrímur stóð seint upp; hann leit til haugsins Vésteins og mælti:

Geirr í gumna sárum
gnast; kannkat þat lasta.

Gísli tók knöttinn á skeiði og rekur á milli herða Þorgrími svo að hann steypist áfram og mælti:

Böllr á byrðar stalli
brast; kannkat þat lasta.

Þorkell sprettur upp og mælti: "Nú má það sjá hver sterkastur er eða mestur atgervismaður er og hættum nú."

Og svo gerðu þeir. Tókust nú af leikarnir og líður á sumarið og fækkaðist nú heldur með þeim Þorgrími og Gísla.

Þorgrímur ætlaði að hafa haustboð að veturnóttum og fagna vetri og blóta Frey og býður þangað Berki bróður sínum og Eyjólfi Þórðarsyni og mörgu öðru stórmenni. Gísli býr og til veislu og býður til sín mágum sínum úr Arnarfirði og Þorkötlum tveimur og skorti eigi hálft hundrað manna að Gísla. Drykkja skyldi vera að hvorratveggja og var stráð gólf á Sæbóli af sefinu af Seftjörn.

Þá er þeir Þorgrímur bjuggust um og skyldu tjalda húsin en boðsmanna var þangað von um kveldið þá mælti Þorgrímur við Þorkel: "Vel kæmu oss nú reflarnir þeir hinu góðu er Vésteinn vildi gefa þér; þætti mér sem þar væri langt í milli hvort þú hefðir þá með öllu eða hefðir þú þá aldrei og vildi eg nú að þú létir sækja þá."

Þorkell svarar: "Allt kann sá er hófið kann og mun eg eigi eftir þeim senda."

"Eg skal það gera þá," sagði Þorgrímur og bað Geirmund fara.

Geirmundur svarar: "Vinna mun eg nokkuð en ekki er mér um að fara."

Þá gengur Þorgrímur að honum og slær hann buffeitt mikið og mælti: "Far nú þá ef þér þykir nú betra."

"Nú skal fara," sagði hann, "þó að nú sé verra; en vit það fyrir víst að hafa skal eg vilja til að fá þér fylu er þú færð mér fola og er þó eigi varlaunað."

Síðan fer hann. Og er hann kemur þar þá eru þau Gísli og Auður búin að láta upp tjöldin. Geirmundur ber upp erindið og sagði allt sem farið hafði.

"Hvort viltu, Auður, ljá tjöldin?" sagði Gísli.

"Eigi spyrð þú þessa af því að þú vitir eigi að eg vildi að þeim væri hvorki þetta gott gert né annað það er þeim væri til sæmdarauka."

"Hvort vildi Þorkell bróðir minn?" sagði Gísli.

"Vel þótti honum að eg færi eftir."

"Það skal ærið eitt til," sagði Gísli og fylgir honum á leið og fær honum gripina.

Gísli gengur með honum og allt að garði og mælti: "Nú er þann veg að eg þykist góða hafa gert ferð þína og vildi eg að þú værir mér nú leiðitamur um það sem mig varðar og sér æ gjöf til gjalda og vildi eg að þú létir lokur frá hurðum þremur í kveld; og mættir þú muna hversu þú varst beiddur til fararinnar.

Geirmundur svarar: "Mun Þorkatli bróður þínum við engu hætt?"

"Við alls engu," sagði Gísli.

"Þá mun þetta áleiðis snúast," sagði Geirmundur.

Og nú er hann kemur heim kastar hann niður gripunum. Þá mælti Þorkell: "Ólíkur er Gísli öðrum mönnum í þolinmæði og hefur hann betur en vér."

"Þessa þurfum vér nú," segir Þorgrímur og láta upp refilinn.

Síðan koma boðsmenn um kveldið. Og þykknar veðrið, gerir þá logndrífu um kveldið og hylur stígu alla.

16. kafli

Börkur og Eyjólfur koma um kveldið með sex tugi manna og var þar hundrað manna en hálft að Gísla. Tóku menn til drykkju um kveldið og fara menn í rekkjur eftir það og sofa.

Gísli mælti við Auði, konu sína: "Eg hef ekki gefið hesti Þorkels hins auðga og gakk þú með mér og lát loku fyrir hurð og vaki á meðan eg geng í brott og lát frá loku er eg kem aftur."

Hann tekur spjótið Grásíðu úr örkinni og er í kápu blárri og skyrtu og í línbrókum og gengur hann síðan til lækjar þess er fellur á milli bæjanna og tekið var neytingarvatn af hvorumtveggja bænum. Hann gengur götu til lækjarins en veður síðan lækinn til götu þeirrar er lát til hins bæjarins. Gísla var kunnug húsaskipan á Sæbóli því að hann hafði gert þar bæinn. Þar var innangengt í fjós. Þangað gengur hann. Þar stóðu þrír tugir kúa hvorum megin; hann hnýtir saman halana á nautunum og lýkur aftur fjósinu og býr svo um að eigi má upp lúka þó að innan sé til komið. Síðan fer hann til mannhúsanna og hafði Geirmundur geymt hlutverka sinna því að loka var engin fyrir hurðum. Gengur hann hús inn og lýkur aftur hurðunni sem um aftaninn hafði verið um búið. Nú fer hann að öllu tómlega. Eftir það stendur hann og hlýðist um hvort nokkrir vektu og verður hann þess var að allir menn sofa.

Þrjú voru log í skálanum. Síðan tekur hann sefið af gólfinu og vefur saman, kastar síðan í ljósið eitt og slokknar það. Eftir það stendur hann og hyggur að hvort nokkur vaknar við og finnur hann það ekki. Þá tekur hann aðra sefvisk og kastar í það ljós er þar var næst og slekkur það. Þ:á verður hann þess var að eigi munu allir sofa því að hann sér að ungs manns hönd kemur á hið þriðja ljósið. Nú gengur hann innar eftir húsinu og að lokhvílunni þar er þau þorgrímur hvíldu og systir hans og var hnigin hurð á gátt og eru þau bæði í rekkju. Gengur hann þangað og þreifast fyrir og tekur á brjósti henni og hvíldi hún nær stokki.

Síðan mælti hún Þórdís: "Hví er svo köld hönd þín, Þorgrímur?" og vekur hann.

Þorgrímur mælti: "Viltu að eg snúist að þér?"

Hún hugði að hann legði höndina fyrir hana. Gísli bíður þá enn um stund og vermir höndina á serk sér en þau sofna bæði. Nú tekur hann á Þorgrími kyrrt svo að hann vaknaði. Hann hugði að hún Þórdís vekti hann og snerist þá að henni. Gísli tekur þá klæðin af þeim annarri hendi en með annarri leggur hann í gegnum Þorgrím með Grásíðu svo að í beðnum nam stað.

Nú kallar hún Þórdís og mælti: "Vaki menn í skálanum, Þorgrímur er veginn, bóndi minn."

Gísli snýr í brott skyndilega til fjóssins, gengur þar út sem hann hafði ætlað og lýkur aftur eftir sér rammlega, snýr heim síðan hina sömu leið og má hvergi sjá spor hans. Auður lætur lok frá hurðu er hann kom heim og fer hann í sæng sína og lætur sem ekki sé í orðið eða hann eigi um ekki að vera.

En menn allir voru ölærir á Sæbóli og vissu eigi hvað af skyldi ráða; kom þetta á þá óvara og urðu því eigi tekin þau ráð sem dygði eða þörf var á.

17. kafli

Eyjólfur mælti: "Hér eru orðin mikil tíðindi og ill og er fólk þetta vitlaust hér er. Nú sýnist mér það ráð að kveikja ljós og hlaupa til dyranna svo að vegandinn megi eigi út komast."

Og svo var gert. Þykir mönnum, er eigi verður við vegandann vart, sem sá muni þar nokkur inni vera er verkið hefur unnið. Líður nú til þess er dagur kemur. Er þá tekið lík Þorgríms og brott kippt spjótinu og til graftar búið og er þar að sex tugir manna, fara nú á Hól til Gísla. Þórður hinn huglausi var úti og er hann sér liðið hleypur hann inn og segir að her manns fer að bænum og var hann allmjög flaumósi.

"Það er vel þá," segir Gísli og kvað vísu:

Fell eigi ek fullum,
folkrunnr hjarar munni
ráðit hefr margra manna
morð, við hverju orði;
látum vér, þótt bága
viggruðr hniginn liggi,
kominn es þyss í þessa
þjóð, of oss sem hljóðast.

Nú koma þeir í bæinn, Þorkell og Eyjólfur; ganga að lokrekkju þeirri sem Gísli hvíldi í og kona hans en Þorkell, bróðir Gísla, gengur upp fyrir hvílugólfið og sér hvar að skór Gísla liggja, frosnir og snæugir allir; hann skaraði þá upp undir fótborðið og svo að eigi skyldu sjá þá aðrir menn.

Nú fagnar Gísli þeim og spyr tíðinda. Þorkell kvað bæði mikil og ill og spyr hverju gegna mundi eða hvað þá skal til ráða taka.

"Skammt er þá milli illra verka og stórra," segir Gísli; "Viljum vér til þess bjóðast að heygja Þorgrím og eigið þér það að oss er það skylt að vér gerum það með sæmd."

Þetta þiggja þeir og fara allir saman á Sæból til haugsgerðar og leggja Þorgrím í skip. Nú verpa þeir hauginn eftir fornum sið.

Og er búið er að lykja hauginn þá gengur Gísli til óssins og tekur upp stein einn, svo mikinn sem bjarg væri, og leggur í skipið svo að nær þótti hvert tré hrökkva fyrir en brakaði mjög í skipinu og mælti: "Eigi kann eg skip að festa ef þetta tekur veður upp."

Það var nokkurra manna mál að eigi þótti allólíkt fara því er Þorgrímur hafði gert við Véstein er hann ræddi um helskóna.

Nú búast þeir heim frá haugnum. Þá mælti Gísli við Þorkel, bróður sinn: "Það þykist eg að þér eiga, bróðir, að nú sé okkar vinfengi sem þá er best hefur verið og tökum nú upp leika."

Þorkell tekur því vel. Og fara nú heim hvorirtveggja. Gísli hefur nú eigi allmannfátt og er nú slitið boðinu og gefur Gísli góðar gjafir sínum boðsmönnum.

18. kafli

Nú er efri drukkið eftir Þorgrím og gefur Börkur góðar vingjafir mörgum mönnum.

Það er næst til tíðinda að Börkur kaupir að Þorgrími nef að hann seiddi seið að þeim manni yrði ekki að björg er Þorgrím hefði vegið þó að menn vildu duga honum. Uxi, níu vetra gamall, var honum gefinn til þess. Nú flytur Þorgrímur fram seiðinn og veitir sér umbúð eftir venju sinni og gerir sér hjall og fremur hann þetta fjölkynngilega með allri ergi og skelmiskap.

Varð og sá hlutur einn er nýnæmum þótti gegna að aldrei festi snæ utan og sunnan á haugi Þorgríms og eigi fraus; og gátu menn þess til að hann myndi frey svo ávarður fyrir blótin að hann myndi eigi vilja að freri á milli þeirra.

Því fór fram um veturinn og eiga þeir bræður leika saman. Börkur gengur þar í bú með Þórdísi og fær hennar. Hún fór eigi ein saman þá er þetta var og fæðir hún svein og er hann vatni ausinn og er fyrst nefndur Þorgrímur eftir föður sínum. Og er hann vex upp þótti þeim hann þungur í skaplyndi og óeirinn og var snúið nafninu og kallaður Snorri goði.

Börkur bjó þar þau misseri og eiga þeir leika saman.

Kona er nefnd Auðbjörg er bjó í ofanverðum dalnum á Annmarkastöðum. Hún var systir Þorgríms nefs. Hún hafði átt sér bónda er Þorkell hét og var kallaður annmarki. Sonur hennar hét Þorsteinn; hann var einhver sterkastur að leikunum, annar en Gísli. Þeir eru jafnan sér í leik, Gísli og Þorsteinn, en þeir til móts, Börkur og Þorkell.

Einhvern dag kom þar fjöldi manna að sjá leikinn því að mörgum var mikil forvitni á að sjá leikinn og vita hver sterkastur væri eða leikmaður bestur. En þar var sem víða annars staðar að mönnum er þess meira kapp á er fleiri koma til leikanna. Þess er getið að Börkur hefði ekki við Þorsteini um daginn og að lyktum reiddist Börkur og braut í sundur knatttré Þorsteins en Þorsteinn felldi hann og rak við svellinu niður.

En er Gísli sér það þá mælti hann að hann skyldi leika sem hann hefði mátt til við Börk, "og mun eg skipta trjám við þig."

Svo gera þeir. Gísli sest niður og gerir að trénu, horfir á hauginn Þorgríms; snær var á jörðu en konu sátu upp í brekkuna, Þórdís systir hans og margar aðrar. Gísli kvað þá vísu er æva skyldi:

Teina sák í túni
tál-gríms vinar fálu,
Gaus þess's geig of veittak
gunnbliks þáamiklu;
nú hefir gnýstærir geira
grímu Þrótt of sóttan
þann lét sundr of lendan
landkostuð ábranda.

Þórdís nam þegar vísuna, gengur heim og hefur ráðið vísuna. Þeir skilja nú leikinn; fer Þorsteinn heim.

Maður hét Þorgeir og var kallaður orri; hann bjó á Orrastöðum. Bergur hét maður og var kallaður skammfótur; hann bjó á Skammfótarmýri fyrir austan ána.

Og nú er menn fara heim ræða þeir um leikinn, Þorsteinn og Bergur, og deila að lyktum, er Bergur með berki en Þorsteinn mælir í móti og lýstur Bergur Þorstein öxar hamarshögg; en Þorgeir stendur á milli og fær Þorsteinn eigi hefnt sín, fer heim til móður sinnar, Auðbjargar, bindur hún um sár hans og lætur eigi vel yfir hans ferð.

Kerling fær ekki sofnað um nóttina, svo var henni bimbult. Veður var kalt úti og logn og heiðríkt. Hún gengur nokkrum sinnum andsælis um húsin og viðrar í allar ættir og setur upp nasirnar. En við þessa hennar meðferð þá tók veðrið að skipast og gerir á fjúk mikið og eftir það þey og brestur flóð í hlíðinni og hleypur snæskriða á bæ Bergs og fá þar tólf menn bana og sér enn merki jarðfallsins í dag.

19. kafli

Nú fer Þorsteinn á fund Gísla og skýtur hann skjóli yfir hann og fer hann suður í Borgarfjörð og þar utan. En er Börkur fréttir þessi fákynstur þá fer hann upp á Annmarkastaði og lætur taka Auðbjörgu og fer með hana út á Saltnes og ber hana grjóti í hel. Og er þetta er liðið fer Gísli heiman og kemur á Nefsstaði og tekur Þorgrím nef höndum og færir á Saltnes og er dreginn belgur á höfuð honum og er barður grjóti til bana og er kasaður hjá systur sinni, á hryggnum milli Haukadals og Meðaldals.

Er nú kyrrt og líður á vorið. Fer Börkur suður á Þórsnes og ætlar að ráðast þangað og þykist enga virðingaför hafa farið hafa vestur þangað, látið þvílíkan mann sem Þorgrímur var en fengið enga leiðréttu. Hann býr nú ferð sína og skipar til bús síns og að setja ráð sitt en ætlaði að ger aðra för eftir fé sínu og konu. Þorkell ætlaði og þangað að ráðast, Súrsson, og bjóst í för með Berki, mági sínum.

Frá því er sagt að Þórdís Súrsdóttir hefur leitt Börk á götu, kona hans, en systir Gísla.

Þá mælti Börkur: "Nú vil eg að þú segir mér hví þú varst svo óglöð fyrst á hausti þá er vér slitum leiknum og þú hefur því heitið að segja mér áður en eg færi heiman."

Þau eru nú og komin að hauginum Þorgríms er þau ræða þetta. Þá stingur hún við fótum og kveðst eigi fara lengra; segir hún nú hvað Gísli hafi kveðið þá er hann leit hauginn Þorgríms og kveður fyrir honum vísuna. "Og nú ætla eg," segir hún, "að þú þurfir eigi annan veg eftir að leita um víg Þorgríms og munu rétt búin málin honum á hendur."

Börkur verður við þetta ákaflega reiður og mælti: "Nú vil eg þegar aftur snúa og drepa Gísla. En þó veit eg eigi," sagði hann, "hvað satt er í þessu er Þórdís segir og þykir mér hitt eigi ólíkara að engu gegni og eru oft köld kvenna ráð."

Og ríða þeir Sandaleið, svo getur Þorkell um talið, þar til er þeir koma að Sandaós; þá stíga þeir af baki og æja. Börkur var fámálugur en Þorkell sagði að hann vildi hitta Önund, vin sinn. Hann ríður þegar svo hart að brátt felur sýn. Hann snýr þá leið sinni út á Hól og segir nú Gísla hvað títt er að Þórdís hefur nú upp rofið málið og rannsakað vísuna, "máttu nú og svo við búast að upp er komið máli."

Gísli þagnar og kvað vísu:

Gatat sál fastrar systir,
sveigar, mín að eiga
gætin, Gjúka dóttur
Goðrúnar hugtúnum;
þás log-Sága lægis
lét sinn, af hug stinnum
svá rak snjallra bræðra
sör-Freyja, ver deyja.

"Og þóttist eg eigi þess verður frá henni því að eg þykist það lýst hafa nokkrum sinnum að mér hefur eigi hennar óvirðing betri þótt en sjálfs mín; hef eg stundum lagt líf mitt í háska fyrir hennar sakir en hún hefur nú gefið mér dauðaráð. En það vil eg nú vita, bróðir, hvað eg skal þar eiga sem þú ert, slíkt sem nú hef eg að gert."

"Að gera þig varan við ef menn vilja drepa þig en bjargir veiti eg þér engar, þær er mér megi sakir á gefa. Þykir mér mikið af gert við mig að drepinn er Þorgrímur, mágur minn og félagi og virktavinur."

Gísli svarar: "Var eigi þess von um slíkan mann sem Vésteinn var að eigi myndi mannhefndalaust vera og myndi eg eigi þér svo svara sem þú svarar mér nú og eigi heldur gera."

Nú skilja þeir. Fer Þorkell til móts við Börk og fara þeir suður til Þórsness og skipar Börkur til bús síns; en Þorkell kaupir land á Barðaströnd, það er í Hvammi hét.

Nú kemur að stefnudögum og fer Börkur vestur með fjóra tugi manna og ætlar að stefna Gísla til Þórsnessþings og er Þorkell Súrsson þar í för og systursynir Barkar, Þóroddur og Saka-Steinn; þar var og í för Austmaður einn er Þorgrímur hét. Þeir ríða nú til Sandaóss.

Þá mælti Þorkell: "Eg á skuld að heimta hér á einum bæ litlum," og nefndi bæinn, "og vil eg þangað ríða og heimta skuldina en þér ríðið eftir tómlega."

Nú ríður Þorkell fyrir og er hann kom þar sem hann hafði á kveðið þá biður hann húsfreyju að hún skipti hestum við sig og láti þennan sama standa fyrir dyrum, "og kasta vaðmáli yfir söðulinn og er förunautar mínir koma eftir þá seg þú að eg sitji inni í stofu og telji eg silfur."

Nú fær hún honum hest annan og ríður hann nú skyndilega og kemur í skóga og hittir Gísla og segir honum hvað vera er að Börkur er vestan kominn.

20. kafli

Nú er þar til máls að taka að Börkur býr mál til Þórsnessþings á hendur Gísla um víg Þorgríms. Á þeirri stundu selur Gísli land sitt Þorkatli Eiríkssyni og tók við lausafé; það var honum mjög innan handar. Hann spyr Þorkel bróður sinn ráða eða hvað hann legði til með honum eða hvort hann vill nokkra ásjá veita honum. Hann svarar sem fyrr að hann kveðst mundu gera honum njósn ef honum væru aðfarir veittar en kveðst mundu firra sig sakagiftum.

Þorkell ríður nú á brott og víkur svo reið sinni að hann kemst á bak þeim Berki og seinkar nú ferðina þeirra heldur.

Gísli tekur nú eyki tvo og ekur til skógar með fjárhlut sinn og með honum þræll hans, Þórður hinn huglausi.

Þá mælti Gísli: "Oft hefur þú mér hlýðinn verið og minn vilja gert og á eg þér góðu að launa." Það var vandi Gísla að hann var í kápu blárri og vel búinn; hann varpar þá af sér kápunni og mælti: "Kápu þessa vil eg gefa þér, vinur, og vil eg að þú njótir nú þegar og farir í kápuna og sit síðan í sleðanum, þeim er síðar fer, en eg mun leiða eykina og vera í kufli þínum."

Þeir gera nú svo. Þá mælti Gísli: "Ef svo ber til að nokkrir menn kalla á þig þá skaltu þess mest gæta að svara aldregi en ef nokkrir menn vilja þér mein gera þá haltu til skógarins."

En það var mjög jafnfært um vit og hugrekki því að hvorugt var neitt til.

Gísli leiðir nú eykina. Þórður var mikill maður vexti og bar hann hátt í sleðanum; hrósaði hann sér og heldur og þóttist veglega búinn. Nú sjá þeir Börkur för þeirra er þeir fara til skógarins og hleypa eftir hvatlega. En er Þórður sér það þá hleypur hann úr sleðanum sem hann má harðast og til skógarins. Þeir hyggja Gísla þar fara og halda eftir sem ákafast og kalla á hann sem þeir geta. En hann þegir við og hleypur sem hann má. Þorgrímur Austmaður skýtur eftir honum spjóti og kemur milli herða honum svo hart að hann fellur við áfram og var það hans banasár.

Þá mælti Börkur: "Skjóttu allra manna heilastur."

Þeir bræður ræddu sín á milli að þeir mundu fara eftir þrælnum og vita ef nokkur hugur er í honum; þeir snúa nú til skógarins.

Nú er frá því að segja að þeir Börkur koma að blákápumanninum og draga af honum kápuhöttinn og þykir nú minna happ í en þeir ætluðu því að þeir kenndu þar Þórð hinn huglausa er þeir ætluðu Gísla.

Það er nú sagt að þeir bræður koma að skóginum en Gísli er kominn í skóginn og sér hann þá svo þeir hann. Þá skýtur annar þeirra spjóti til hans en Gísli tík það á lofti og skaut aftur og kemur á Þórodd miðjan og fló gegnum hann. Nú snýr Steinn í móti félögum sínum og segir heldur ógreiðfært um skóginn. Börkur vill þó þangað að leita og svo gera þeir. Og er þeir koma að skóginum þá sér Þorgrímur Austmaður hvar limið hrærist í einum stað og skýtur spjóti á gegngert og kemur í kálfann á Gísla. Hann sendir aftur spjótið og rekur gegnum Þorgrím og lætur hann líf sitt.

Nú leita þeir um skóginn og finna Gísla eigi og hverfa aftur við svo búið til bæjarins og búa nú mál til á hendur Gísla um víg Þorgríms. Engan hlut taka þeir þaðan í fjárhlutum og fara síðan heim.

Gísli fer nú á fjallið að húsbaki og bindur sár sitt meðan þeir Börkur voru á bænum. Og er þeir voru á brottu fór Gísli heim og býr þegar ferð sína og fær sér skip og flytur þangað á mikinn fjárhlut og fer Auður, kona hans, með honum og Guðríður, fóstra hans, og út til Húsaness og koma þar við land. Gísli gengur þar upp til bæjarins og hittir þar mann og spyr sá hver hann væri en Gísli sagði til slíkt er honum sýndist en ekki það sem var. Gísli tekur upp stein einn og kastar út í hólm þann er þar var fyrir landi og bað þar bóndason eftir gera þá er hann kæmi heim og kvað hann þá vita mundu hver maðurinn þar hefði komið. En það var einskis manns að inna og koma þar þá enn það fram að Gísli var betur að íþróttum búinn en flestir menn aðrir. Eftir það gengur hann á bátinn og rær út yfir nesið og yfir Arnarfjörð og yfir fjörð þann er gengur inn af Arnarfirði er heitir Geirþjófsfjörður og býst hann þar um og gerir þar alhýsi og er þar um veturinn.

21. kafli

Það er nú þessu næst að Gísli gerir orð mágum sínum, Helga og Sigurði og Vestgeiri, að þeir fari til þings og bjóði sætt fyrir hann að hann yrði eigi sekur. Og fara þeir til þings, Bjartmarssynir, og koma engu áleiðis um sættina og kalla menn að þeir hafi illa borið sig svo að þeim hafi næsta í allt skap komið áður en létti. Þeir segja Þorkatli auðga hvað títt er og kváðust eigi þora að segja Gísla sekt sína. Urðu þar engin önnur tíðindi á þinginu en Gísli verður sekur. Þorkell auðgi fer þá til fundar við Gísla og sagði honum sekt sína.

Þá kvað Gísli vísu þessa:

Myndit þá
á Þórsnesi
meðallok
á minni sök,
ef Vésteins
væri hjarta
Bjartmars sonum
í brjóst lagt.

Þá glúpnuðu,
es glaðir skyldu,
móðurbræðr
minna kvánar,
sem eyðendr
eggi væri
fjarðar dags
fúlu lostnir.

Luku þungliga á þingi,
þau'ro orð komin norðan,
saldeilandi sólar,
sómlaust á mik dómi;
þar sem bláserkjar Berki,
báru hreins, ok Steini,
veitir dags ens vegna,
valdr hermila at gjalda.

Nú spyr Gísli hvers hann skal von eiga hjá þeim. Þeir segjast, hafnar báðir, munu skjóta skjóli yfir hann með þeim hætti að þeir létu eigi fé sitt fyrir þá sök. Fer Þorkell heim eftir þetta.

Svo er sagt að Gísli var þrjá vetur í Geirþjófsfirði en stundum með Þorkatli Eiríkssyni en aðra þrjá vetur fer hann um allt Ísland og hittir höfðingja og biður sér liðs. En sakir þess tröll skapar er Þorgrímur nef hafði haft í seiðnum og atkvæða, þá verður þess eigi auðið að höfðingjar tækju við honum og þó að stundum þætti þeim eigi svo ólíklega horfa þá bar þó alls staðar nokkuð við. Hann var þó löngum með Þorkatli Eiríkssyni og hefur hann nú sex vetur verið í sektinni. Eftir þetta er hann stundum í Geirþjófsfirði á bæ Auðar en stundum í fylgsnum fyrir norðan ána er hann hafði gert sér; annað fylgsni átti hann við kleifarnar suður frá garði og var hann ýmist.

22. kafli

Nú er Börkur spyr þetta þá býr hann heiman för sína og hittir Eyjólf hinn gráa er þá bjó í Arnarfirði í Otradal og beiðir hann að hann leiti eftir Gísla og drepi hann sektinni og kveðst mundu gefa honum til þrjú hundruð silfurs, þess að allgott sé, að hann leggi á alla stund að leita eftir honum. Hann tekur við fénu og heitir sinni umsýslu.

Sá er maður var með Eyjólfi er Helgi hét og var kallaður Njósnar-Helgi; hann var bæði frár og skyggn og var honum um alla fjörðu kunnugt. Hann er sendir í Geirþjófsfjörð að vita hvort Gísli væri þar. Hann verður var við manninn og veit eigi hvort Gísli er eða annar maður. Hann fer heim og segir Eyjólfi til svo búins. Hann kveðst víst vita að það muni Gísli verið hafa og bregður við skjótt og fer heiman við sjöunda mann í Geirþjófsfjörð og verður ekki var við Gísla og fer við svo búið aftur heim.

Gísli var vitur maður og draumamaður mikill og berdreymur.

Það kemur saman með öllum vitrum mönnum að Gísli hafi lengst allra manna í sekt gengið annar en Grettir Ásmundarson.

Frá því er sagt eitt haust að Gísli lét illa í svefni nótt eina þá er hann var á bæ Auðar og er hann vaknar spurði hún hvað hann dreymdi.

Hann svarar: "Eg á draumkonur tvær," sagði hann, "og er önnur vel við mig en önnur segir mér það nokkuð jafnan er mér þykir verr en áður og spáir mér illt eina. En það dreymdi mig nú að eg þóttist ganga að húsi einu eða skála og inn þóttist eg ganga í húsið og þar kenndi eg marga inni, frændur mína og vini. Þeir sátu við elda og drukku og voru sjö eldarnir, sumir voru mjög brunnir en sumir sem bjartastir. Þá kom inn draumkona mín hin betri og sagði að það merkti aldur minn hvað eg ætti eftir ólifað og hún réð mér það meðan eg lifði að láta leiðast fornan sið og nema enga galdra né forneskju og vera vel við daufan og haltan og fátæka og fáráða. Eigi var draumurinn lengri."

Þá kvað Gísli vísur nokkrar;

Fold, komk inn þars eldar,
unnfúrs, í sal brunnu,
eir várum þar aura,
einn ok sex, at meini;
sák blíðliga báðar
bekksagnir mér fagna;
hróðrdeilir bað heilan
hvern mann í því ranni.

Hyggið at, kvað Egða
andspilli Vör banda,
mildr, hvé margir eldar,
malmrunnr, í sal brunnu;
svá átt, kvað Bil blæju,
bjargs ólifat marga,
veðrs Skjöldunga valdi,
vetr; nú's skammt til betra.

Gerskat næmr, kvað Nauma
niðleiks ara steikar
árr, nema allgótt heyrir,
Iðja galdrs, að skaldum;
fátt kveða fleyja brautar
fúrþverranda verra,
randar logs ens reynda
runnr, en illt at kunna.

Vald eigi þú vígi,
ves þú ótyrrinn, fyrri,
morðs við mæti-Njörðu,
mér heitið því, sleitu;
baugskyndir, hjalp blindum,
Baldr, hygg at því, skjaldar,
illt kveða háð ok höltum,
handlausum tý, granda.

23. kafli

Nú er frá því að segja að Börkur þrýstir að Eyjólfi fast og þykir eigi svo fylgt sem hann vildi og þykir eigi mikið koma fyrir féð, það er hann fékk honum í hendur og kveðst þess vís vera orðinn að Gísli væri í Geirþjófsfirði og segir það mönnum Eyjólfs er á milli fara að hann leiti eftir Gísla ellegar hann kveðst sjálfur mundu fara. Eyjólfur vaknar við skjótt og sendir enn Njósnar-Helga til Geirþjófsfjarðar og hefur hann nú vistir með sér og er á brott viku og situr nú um að hann yrði var við Gísla. Sér nú einn dag að hann gengur frá leynum sínum og kennir Gísla. Lætur hann nú verða við brugðið og fer á brott og segir Eyjólfi hvers hann er vís orðinn.

Eyjólfur býr nú ferð sína heiman með níunda mann og fer til Geirþjófsfjarðar og hittir á bæ Auðar. Þeir finna eigi Gísla þar og fara nú um alla skóga að leita Gísla og finna hann eigi, koma aftur til bæjar Auðar og býður Eyjólfur henni mikið fé til að segja til Gísla. En það fer fjarri að hún vilji það. Þá heitast þeir að meiða hana að nokkru og tjáir það alls ekki og verður við það heim að fara. Þykir þessi för hin hæðilegasta og er Eyjólfur heima um haustið.

En þó að Gísli yrði þá eigi fundinn þá skilur hann þó að hann muni tekinn verða er skammt er á milli. Gísli ræðst nú heiman og inn til Strandar og ríður á fund Þorkels bróður síns í Hvamm. Hann drepur þar á dyr á svefnhúsi því er Þorkell liggur í og gengur hann út og heilsar Gísla.

"Nú vil eg vita," sagði Gísli, "ef þú vilt mér nokkurn fullting veita; vænti eg nú af þér góðrar liðveislu; er nú mjög þröngt að mér; hef eg og lengi til þessa sparast."

Þorkell svarar hinu sama og kveðst enga björg munu veita honum, þá er hann megi sakir á gefa en kveðst mundu fá honum silfur eða fjararskjóta ef hann þyrfti eða aðra hluti þá sem fyrr var sagt.

"Sé eg nú," sagði Gísli, "að þú vilt mér ekki lið veita. Fá mér nú þrjú hundruð vaðmála og huggast svo að eg mun sjaldan krefja þig héðan frá liðs."

Þorkell gerir svo, fær honum vöru og silfur nokkuð. Gísli kveðst það nú og þiggja mundu en sagðist eigi þó svo lítillega við hann gera mundu ef hann stæði í hans rúmi.

Gísla þykir fyrir er þeir skiljast. Hann fer nú út í Vaðil til móður Gests Oddleifssonar og kemur þar fyrir dag og drepur á dyr. Gengur húsfreyja til dyra. Hún var oft vön að taka við skógarmönnum og átti hún jarðhús; var annar jarðhússendinn við ána en annar við eldahúsið hennar og sér enn þess merki.

Þorgerður fagnar vel Gísla, "og mun eg það til láta við þig að þú dveljist hér um hríð en eg má eigi vita hvort það verður nokkuð annað en kvenvælar einar."

Gísli kveðst nú það þiggja mundu en segir nú eigi verða körlunum svo vel að örvænt sé að konunum verði betur. Gísli er þar um veturinn og hefur hvergi verið jafnvel gert við hann í sektinni sem þar.

24. kafli

Þegar vorar fer Gísli aftur í Geirþjófsfjörð og má þá eigi lengur vera í brott frá Auði, konu sinni; svo unnast þau mikið; er nú þar um sumarið á laun og til þess er haustar. Og kemur nú á þref um draumana þegar lengir nóttina og kemur nú hin verri draumkonan að honum og gerast nú svefnfarir harðar og segir nú eitt sinn Auði hvað hann dreymdi er hún spurði eftir og kvað þá vísu:

Villa oss, ef elli
oddstríðir skal bíða
mér gengr Sjöfn í svefna
sauma, mínir draumar;
stendr eigi þat, þeygi,
þornreið, bragar greiði
öl-Nanna selr annars
efni, mér fyr svefni.

Og nú segir Gísli að konan nú hin verri kemur oft að honum og vill jafnan ríða hann blóði og roðru og þvo honum í og lætur sér illilega.

Þá kvað hann enn vísu:

Eigi verðr, en orða
oss lér of þat, borða
Gefn drepr fyr mér glaumi,
gótt ór hverjum draumi,
kemr, þegars ek skal blunda,
kona við mik til funda,
oss þvær unda flóði,
öll í manna blóði.

Og enn kvað hann:

Sagt hefk enn frá órum
oddflaums viðum draumi,
Eir, varðat mér, aura,
orðfátt, es munk láta;
verr hafa vápna snerru
vekjendr, þeirs mik sekðu,
brynju hatrs ens bitra
beiðendr, ef nú reiðumk.

Og eru nú kyrr tíðindi. Fer Gísli nú til Þorgerðar og er með henni annan vetur. En um sumarið eftir fer hann í Geirþjófsfjörð og er þar uns haustar. Þá fer hann enn til Þorkels, bróður síns, og drepur þar á dyr. Þorkell vill ekki út ganga og tekur Gísli kefli og ristir á rúnir og kastar inn. Það sér Þorkell og tekur upp og lítur á og stendur upp síðan, gengur út og heilsar gísla og spyr tíðinda.

Hann kveðst ekki kunna að segja, "og er eg nú kominn hið síðasta sinn á þinn fund, frændi, og lát nú verða að sköruglegri liðveislu en eg mun því launa að eg mun aldrei krefja þig oftar."

Þorkell svarar enn hinu sama og fyrr, býður honum hross eða skip en skerst undan allri liðveislu. Gísli þiggur skip og biður Þorkel segja fram með sér skipið. Hann gerir svo og fær honum sex vættir matar og hundrað vaðmála. Og er Gísli er á skip kominn stendur Þorkell á landi.

Þá mælti Gísli: "Nú þykist þú öllum fótum í etu standa og vera vinur margra höfðingja og uggir nú ekki að þér en eg er sekur og hef eg mikinn fjandskap margra manna. En það kann eg þér að segja að þú munnt þó fyrr drepinn en eg. Og munum við nú skilja og verr en vera skyldi og sjást aldrei síðan en vita skaltu það að eigi myndi eg svo við þig gera."

"Ekki hirði eg um spár þínar," sagði Þorkell, og skildust við svo búið.

Fer Gísli inn til Hergilseyjar á Breiðafjörð. Þá tekur hann úr skipinu þiljur og þóftur, árar og allt það sem laust var innbyrðis og hvelfir skipinu og lætur reka inn að Nesjum. Og nú geta menn þess til er sjá skipið að Gísli muni drukknaður vera er skipið er brotið og rekið á land og muni tekið hafa frá Þorkatli bróður sínum.

Nú gengur Gísli í Hergilsey til húss. Þar býr sá maður er Ingjaldur hét; kona hans hét Þorgerður; Ingjaldur var systrungur Gísla að frændsemi og hafði með honum farið út hingað til Íslands. Og er þeir hittast býður hann Gísla allan greiða og alla björg þá er hann mátti honum veita og það þiggur Gísli og er þar síðan um kyrrt nokkra stund.

25. kafli

Með Ingjaldi var þræll og ambátt; þrællinn hét Svartur en ambáttin hét Bóthildur. Helgi hét sonur Ingjalds og var afglapi sem mestur mátti vera og fífl; honum var sú umbúð veitt að raufarsteinn var bundinn við hálsinn og beit hann gras úti sem fénaður og er kallaður Ingjaldsfífl; hann var mikill vexti, nær sem tröll.

Gísli er þar þann vetur og smíðar skip Ingjaldi og marga hluti aðra. En allt það sem hann smíðaði þá var það auðkennt því að hann var hagari en flestir menn aðrir. Menn undruðust hví það var svo vel smíðað margt sem Ingjaldur átti því hann var ekki hagur.

Gísli er ávallt á sumrum í Geirþjófsfirði; fer nú svo fram þrjá vetur frá því er hann hafði dreymt og verður honum þetta að mestu trausti er Ingjaldur veitir honum. Þykir mönnun nú grunsamlegt um þetta allt jafnsaman og hyggja nú að Gísli muni lifa og hafa verið með Ingjaldi en eigi drukknaður sem sagt hafði verði. Leggja menn nú ræðu á. Ingjaldur á nú þrjú skip og öll vel ger.

Kemur þessi kvittur fyrir Eyjólf hinn gráa og hlýtur Helgi enn að fara og kemur hann í Hergilsey. Gísli er ávallt í jarðhúsi þá er menn koma í eyna. En Ingjaldur var góður gestgjafi og býður Helga gisting; þar var hann um nóttina.

Ingjaldur var iðjumaður mikill; hann reri á sjó hvern dag er sjófært var. Og um morguninn er hann var búinn til útróðrar spyr hann hvort Helga er ekki ákaft um ferðina eða hví hann liggur. Hann kvað sér vera ekki einkar skjallt og blés við og strauk höfuðbeinin. Ingjaldur bað hann þá liggja sem kyrrastan og fer hann til sjávar en Helgi tekur að stynja fast.

Nú er sagt að Þorgerður gengur til jarðhússins og ætlar að gefa Gísla dögurð en þili er á millum búrsins og þess er Helgi lá í. Þorgerður gengur í brott úr búrinu. Klífur Helgi upp á þilið og sér að þar var manni matur deildur og í því kemur Þorgerður inn og vinst Helgi við fast og fellur ofan af þilinu. Þorgerður spyr því hann lætur svo að klífa í ræfur upp og vera eigi kyrr.

Hann kveðst svo óðvirki vera af beinverkjum að hann mátti eigi kyrr vera, "og vildi eg," segir hann, "að þú fylgdir mér til rekkju."

Hún gerir svo. Síðan gengur hún brott með matinn. En Helgi rís upp þegar og gengur eftir og sér nú hvað títt er, gengur nú aftur og leggst niður eftir þetta og þar þann dag.

Ingjaldur kemur heim um kveldið og fer til rekkju Helga og spyr hvort honum létti nokkuð. Hann kvaðst áleiðist snúast og beiðir sér farnings um morguninn úr eynni og er hann fluttur suður til Flateyjar og fer síðan suður til Þórsness; segir nú að hann er orðinn var við að Gísli er með Ingjaldi.

Síðan býst Börkur heiman og eru saman fimmtán, fara á skip og sigla sunnan yfir Breiðafjörð.

Þennan dag er Ingjaldur róinn á vastir og Gísli með honum en þræll hans og ambátt á öðru skipi og sátu hjá eyjum nokkrum, þeim er heita Skutileyjar.

26. kafli

Nú sér Ingjaldur að skipið siglir sunnan og mælti: "Skip siglir þarna og hygg eg að þar muni vera Börkur hinn digri."

"Hvað er þá til ráðs takandi?" sagði Gísli; "eg vil vita hvort þú ert svo hygginn sem þú ert drengurinn góður."

"Skjótt er til ráða að taka," sagði Ingjaldur, "þó að eg sé enginn viturleiksmaður; Róum sem ákafast að eynni og göngum síðan upp á Vaðsteinaberg og verjumst meðan vér megum upp standa."

"Nú fór sem mig varði," sagði Gísli, "að þú myndir hitta það ráðið að þú mættir drengurinn af verða sem bestur; en verri laun sel eg þér þá fyrir liðveisluna en eg hafði ætlað ef þú skalt fyrir mínar sakir lífið láta. Nú skal það vera aldrei og skal annað ráð taka. Þú skalt róa að eynni og þrællinn og ganga upp á bergið og búist að verjast og munu þeir ætla mig annan manninn er sigla sunnan fyrir nesið. En eg mun skipta klæðum við þrælinn sem eitt sinn fyrr og mun eg fara á bátinn með Bóthildi."

Ingjaldur gerði sem Gísli ráðlagði; fannst það eitt á að hann var hinn reiðasti.

Og er þeir skilja þá mælti Bóthildur: "Hvað er nú til ráðs?"

Gísli kvað vísu:

Ráðs leitar nú rítar
ruðr, vekjum mjöð Suðra
skorð, þvít skiljask verðum
skjaldsteins, frá Ingjaldi;
þó munk, hyrs, að hváru
hafa, bláfoldar skafla
snyrtigátt, né sýtik,
snauð, þats mér verðr auðit.

Nú róa þau suður í móti þeim Berki og láta sem ekki væri til vandræða.

Þá segir Gísli fyrir hversu hátta skal: "Þú skalt segja," segir hann, "að hér sé fíflið innan borðs en eg mun sitja í stafni og herma eftir því og vefja mig vaðnum og vera stundum utan borðs og láta sem eg má ærilegast og ef nokkur ber þá um fram mun eg róa sem eg má og leita þess á að sem skjótast skilji með oss."

Og nú rær hún í móti þeim og þó eigi allnærri þeim Berki og lætur sem hún bregði til miða.

Nú kallar Börkur á hana og spyr ef Gísli væri í eynni.

"Eigi veit eg það," segir hún, "en hitt veit eg að er þar sá maður er mjög ber af öðrum mönnum, þeim sem í eynni eru, bæði að vexti og hagleik."

"Já," segir Börkur, "en hvort er Ingjaldur bóndi heima?"

"Löngu áðan reri hann til eyjarinnar," sagði hún, "og þræll hans með honum að því er eg hugði."

"Það mun þó eigi verið hafa," sagði Börkur, "og mun Gísli það verið hafa og róum eftir þeim sem ákafast."

Þeir svöruðu: "Gaman þykir oss að fíflinu," og horfa á það, "svo sem það getur ærilega látið."

Þeir sögðu að hún var hörmulega stödd er hún skyldi fylgja fóla þessum.

"Svo þykir mér og," segir hún, "en hitt finn eg á að yður þykir hlægilegt og harmið mig alllítt."

"Förum ekki að heimsku þessari," sagði Börkur, "og víkjum áleiðis."

Skiljast þau nú og róa þeir til eyjarinnar og ganga á land og sjá nú mennina á Vaðsteinabergi og snúa þangað og hyggja allgott til sín.; en þeir eru uppi á berginu, Ingjaldur og þrællinn.

Börkur kennir brátt mennina og mælti til Ingjalds: "Hitt er nú ráð að selja fram Gísla eða segja til hans ella og ertu mannhundur mikill er þú hefur leynt bróðurbana mínum og ert þó minn landseti og værir þú ills verður frá mér og væri það sannara að þú værir drepinn."

Ingjaldur svarar: "Eg hef vond klæði og hryggir mig ekki þó að eg slíti þeim eigi gerr; og fyrr mun eg láta lífið en eg geri eigi Gísla það gott sem eg má og firra hann vandræðum."

Og það hafa menn mælt að Ingjaldur hafi Gísla mest veitt og það að mestu gagni orðið; og það er sagt að þá er Þorgrímur nef gerði seiðinn að hann mælti svo fyrir að Gísla skyldi ekki að gagni verða þó að menn byrgju honum hér á landi; en það kom honum eigi í hug að skilja til um úteyjar og entist því þetta hóti lengst þótt eigi yrði þess álengdar auðið.

27. kafli

Berki þykir eigi það til liggja að veita Ingjaldi aðgöngu, landseta sínum; hverfa þeir nú frá til bæjar og leita þar Gísla og finna hann eigi sem von var. Þeir fara nú um eyja og koma þar að í einum stað er fíflið lá og beit gras í dalverpi einu og bundinn steinn við hálsinn.

Þá tekur Börkur til orða: "Bæði er nú að mikið er sagt frá fíflinu Ingjalds enda deilist það nú heldur víðara en eg hugði og er hér ekki á að horfa og hefur oss orðið svo mikil vanhyggja að stóru ber; og eigi veit eg nær vér fáum þetta leiðrétt og mun Gísli þar verið hafa á bátnum hjá oss og mun hafa látið eftir fíflinu því að hann er við hvorttveggja brugðinn og er hin mesta hermikráka; og er það skömm jafnmörgum mönnum ef hann skal nú komast úr höndum oss og skundum eftir honum og látum hann nú eigi úr færi ganga."

Síðan hlaupa þeir á skip og róa eftir þeim og falla fast við árar. Þeir geta að líta að þau eru komin langt inn á sund og sækja nú hvorirtveggja fast róðurinn. Rennir það skipið meira sem mennirnir voru fleiri á og leggst svo nærri um síðir að þá er Börkur kominn í skotfæri er þau eru komin að landi.

Þá tekur Gísli til orða og mælti við ambáttina: "Nú munum við skiljast og er hér gull að þú skalt færa Ingjaldi en annað konu hans og seg þeim að þau gefi þér frelsi og ber þetta til jartegna. eg vil og að Svarti sé frelsi gefið. Máttu að vísu heita minn lífgjafi og vil eg að þú njótir þess."

Nú skilja þau og hleypur Gísli á land og í hamraskarð nokkuð er það er á Hjarðanesi. Ambáttin reri í brott, alsveitt af mæði og rauk af henni.

Þeir Börkur róa að landi og verður Saka-Steinn skjótastur af skipinu og hleypur að leita Gísla; og er hann kemur í hamraskarðið stendur Gísli fyrir með brugðið sverð og keyrir þegar í höfuð honum svo að stóð í herðum niðri og féll hann dauður á jörð. Þeir Börkur ganga nú upp á eyna en Gísli hleypur á sund og ætlar að leggjast til lands. Börkur skýtur eftir honum spjóti og kom í kálfann á honum og skar út úr og varð það mikið sár. Hann kemur á brott spjótinu en týnir sverðinu því að hann var svo móður að hann gat eigi á haldið. Þá var myrkt af nótt. Er hann komst að landi þá hleypur hann í skóg því að þá var víða skógum vaxið. Þá róa þeir Börkur að landi og leita Gísla og kvía hann í skóginum og er hann svo móður og stirður að hann má varla ganga og verður nú var við menn alla vega frá sér.

Nú leitar hann ráðs og fer ofan til sjávarins og kemst þar inn með flæðarbökkum til Haugs í myrkrinu og hittir bónda einn er Refur hét og var allra manna slægastur. Hann heilsar honum og spyr tíðinda. Hann sagði allt hversu farið hafði með þeim Berki. Refur átti sér konu er Álfdís hét, væn að yfirliti en fárskona sem mest í skapi og var hinn mesti kvenskratti; með þeim Ref var jafnræði.

Og er hann hefur sagt Ref tíðindin skorar Gísli á hann til fulltingis, "og munu þeir koma hér brátt," sagði Gísli, "og ekur nú að mjög en fáir verða til liðveislu."

"Eg mun gera á nokkurn," sagði Refur, "þann að ráða einn hversu að með skal vara að veita þér og hlutast þú til einskis."

"Það skal nú þiggja," sagði Gísli, "og mun eg eigi ganga fæti framar."

"Gakk þú inn þá," sagði Refur og svo gerðu þeir."

Þá mælti Refur við Álfdísi: "Nú mun eg skipta mönnum við þig í rekkjunni," og tekur nú fötin öll úr rúminu og mælti að Gísli skyldi þar niður leggjast í hálminn og ber á hann ofan fötin og hvílir nú á honum ofan hún Álfdís, "og vertu nú þar," sagði Refur, "fyrst, hvað sem í gerist."

Hann biður nú Álfdísi vera sem versta viðskiptis og sem ærasta, "og spari nú ekki af," sagði Refur, "og að mæla það allt illt er þér kemur í hug bæði í blóti og skattyrðum en eg mun ganga til tals við þá og haga svo orðum sem mér sýnist."

Og í annað sinn er hann kemur út sér hann menn fara og eru þar förunautar Barkar, átta saman. En Börkur er eftir að Fossá. Og skulu þessir þangað fara að leita að Gísla og taka hann ef hann væri þar kominn. En Refur er úti og spyr tíðinda.

"Þau ein kunnum vér að segja, að þú munt spurt hafa. Eða veistu nokkuð til að fara Gísla?" segja þeir, "eða hvort hefur hann hér nokkuð komið?"

"Það er bæði," sagði Refur, "að hann hefur ekki hér komið enda myndi honum skammt til skjótra ófara ef hann hefði þess freistað; og eigi veit eg hversu trúlegt yður þykir að eg myndi eigi óbúnari en einnhver yðar að drepa Gísla; en hef eg það vit með mér að eg myndi þykjast ekki alllítið í vinna að hafa slíks manns traust sem Börkur er og hans vinur vildi eg vera."

Þeir spyrja: "Er þér nokkuð um að vér rannsökum þig og hús þín?"

"Já," sagði Refur, "það vil eg gjarna; því að eg veit að þér megið því örugglegar leita í öðrum stöðum ef þér vitið fyrir víst að hann er eigi hér og gangið inn og leitið sem gersamlegast."

Þeir ganga inn. Og er Álfdís heyrði hark þeirra þá spyr hún hvað gauragangi þar væri eða hverjir glóparnir störfuðu á mönnum um nætur. Refur bað hana að hafa sig að hófi. En hún lætur þó eigi vant margra fíflyrða; veitir hún þeim mikla ágauð svo að þeir máttu minni til reka. Þeir rannsaka eigi að síður og þó minna en þeir myndu ef þeir yrðu eigi fyrir þvílíkum hrópyrðum af húsfreyju. Fara síðan á brott og finna alls ekki og biðja bónda vel lifa en hann bað þá vel fara. Og koma þeir aftur til fundar við Börk og una allilla við sína för og þykjast fengið hafa mikinn mannskaða með svívirðing en komið engu áleiðis.

Flyst þetta nú yfir héraðið og þykir mönnum eigi úr steini hefja hverjum óförum þeir fara fyrir Gísla. Börkur fer nú heim og segir Eyjólfi hvað um er að vera.

Gísli er með Ref hálfan mánuð og síðan fer hann á brott og skilja þeir Refur góðir vinir og gefur Gísli honum hníf og belti og voru það góðir gripir en ekki hafði hann fleira laust.

Og eftir þetta fer Gísli í Geirþjófsfjörð til konu sinnar og hefur nú mikið aukist hans frægð í þessum atburð. Og er það og sannsagt að eigi hefur meir atgervimaður verið en Gísli né fullhugi og þó varð hann eigi gæfumaður. Nú er fyrst frá horfið.

28. kafli

Nú er þar til máls að taka um vorið að Börkur fer til Þorskafjarðarþings með fjölmenni og ætlar að hitta vini sína. Gestur fer vestan af Barðaströnd og Þorkell Súrsson og fer á sínu skipi hvor þeirra.

Og er Gestur er albúinn koma til hans sveinar tveir og klæddir illa og höfðu stafi í höndum. Þess verða menn vísir að Gestur hefur launtal við sveinana og verða menn þess vísir að þeir biðja hann fars og hann veitir þeim.

Þeir fara nú með honum á Hallsteinsnes. Þar ganga þeir á land og fara sem leiðir liggja fyrir þeim til þess er þeir koma til Þorskafjarðarþings.

Maður er nefndur Hallbjörn; hann var göngumaður og fór um héruðin eigi með færri menn en tíu eða tólf en hann tjaldaði sér búð á þinginu. Þangað fara sveinarnir og biðja hann búðarrúms og segjast vera göngumenn. Hann kveðst veita búðarrúm hverjum þeim er hann vill beitt hafa.

"Hef eg hér verið mörg vor," sagði hann, "og kenni eg alla höfðingja og goðorðsmenn."

Þeir sveinarnir segja að þeir vildu hlíta hans ásjá og fræðast af honum, "er okkur mikil forvitni á að sjá stóreflismenn, þar er miklar sögur ganga frá."

Hallbjörn kveðst mundu fara ofan til strandar og sagðist mundu kenna hvert skip skjótlega sem kæmi og segja þeim til. Þeir biðja hann hafa þökk fyrir léttlæti sitt. Fara nú ofan til strandar og svo til sjávarins, sjá nú að skipin sigla að landi.

Þá tekur sveinn hinn eldri til orða: "Hver á það skip er nú siglir hingað næst?"

Hallbjörn sagði að það á Börkur hinn digri.

"En hver siglir þar næst?"

"Gestur hinn spaki," sagði hann.

"En hverjir sigla þar næst og leggja skip sitt við fjarðarhornið?"

"Það er Þorkell Súrsson," sagði hann.

Þeir sjá nú að Þorkell gengur á land og sest niður einhvers staðar meðan þeir flytja varnað þeirra af skipinu svo sem sjórinn félli á land. En Börkur tjaldar búð þeirra. Þorkell hafði gerskan hatt á höfði og feld gráan og gulldálk um öxl en sverð í hendi. Síðan gengur Hallbjörn og sveinarnir með honum þangað að sem Þorkell situr.

Nú tekur annar sveinninn til orða, sá hinn eldri, og mælti: "Hver er sá hinn göfuglegi er hér situr? Eig hef eg séð vænni mann né tígulegri."

Hann svarar: "Vel fara þér orð en Þorkell heiti eg."

Sveinninn mælti: "Allgóður gripur mun sverðið það vera sem þú hefur í hendinni eða hvort muntu lofa mér að sjá."

Þorkell svarar: "Furðu undarlega lætur þú um þetta en þó mun eg þetta leyfa þér," og réttir að honum.

Sveinninn tók við sverðinu og veik sér frá líttað og sprettir friðböndunum og bregður sverðinu.

Og er Þorkell sá það þá mælti hann: "Það lofaði eg þér eigi þarna að bregða sverðinu."

"Þar spurði eg þig ekki að leyfis," sagði sveinninn og reiðir upp sverðið og rekur á hálsinn Þorkatli svo að af tók höfuðið.

En þegar þessi tíðindi eru orðin þá hleypur upp Hallbjörn göngumaður en sveinninn kastar niður sverðinu alblóðugu og grípur upp staf sinn og hlaupa þeir með þeim Hallbirni og urðu göngumenn næsta að gjalti. Þeir hlaupa upp hjá búðinni er Börkur tjaldaði. Menn drífa þá að Þorkatli og þykjast eigi vita hver verkið hefur unnið. Börkur spyr hverju gegndi þys sjá eða kliður er var hjá Þorkatli.

Og er þeir Hallbjörn hlaupa upp hjá búðinni og eru fimmtán göngumenn og er hann Börkur spurði þessa þá svarar sá hinn yngri sveinninn er Helgi hét en sá hét Bergur er vígið hafði vegið: "Eigi veit eg hvað þeir þinga en það hygg eg að þeir þræti um hvort Vésteinn hefði átt eftir dætur einar eða hefði hann átt son nokkurn."

Hallbjörn hleypur til búðar en sveinarnir til skógar er þar var nær og verða eigi fundnir.

29. kafli

Menn hlaupa nú til búðar Hallbjarnar og spyrja hve gegndi. En þeir göngumennirnir segja að sveinar tveir ungir höfðu komið í flokk þeirra og segja að þeim kom þetta mjög að óvörum og kváðust engin deili á þeim vita. Þeir segja þó frá yfirlitum þeirra og viðurtal þeirra, hvílíkt verið hafði. Börkur þykist nú vita af orðum þeim er Helgi hafði mælt að synir Vésteins muni verið hafa. Og eftir þetta gengur hann til fundar við Gest og ræðst um við hann hversu með skal fara.

Börkur mælti: "Mér er það skyldast allra manna að mæla eftir Þorkel, mág minn. Þykir oss eigi því ólíkt hafa til borið sem synir Vésteins muni unnið hafa verið því að eigi vitum vér annarra manna von, þeirra er sakir hafi átt við Þorkel en þeir. Nú kann vera að þeir hafi komist brott að sinni. Gef þú til ráð hversu málið skal upp taka."

Gestur svarar: "Kunna myndi eg mér ráð ef eg hefði vígið vegið að hafa það undanbragð að málið mætti ónýtt verða ef á mér yrði haft að nefnast annan veg en eg héti," og letur Gestur mjög að sökin sé fram höfð.

Það hafa menn fyrir satt að Gestur hafi verið í ráðum með sveinunum því hann var skyldur þeim að frændsemi. Nú hætta þeir og falla niður málin. En Þorkell er heygður að fornum sið og fara menn heim af þinginu og gerist ekki fleira til tíðinda á því þingi.

Börkur unir nú illa við sína ferð sem þó átti hann stundum vanda til og hefur þó svo búið mikla sneypu og svívirðing af þessu máli.

Sveinarnir fara nú uns þeir koma í Geirþjófsfjörð og liggja úti tíu dægur. Koma þeir til Auðar og er Gísli þar fyrir. Þeir koma þar um nótt og drepa á dyr. Auður gengur til hurðar og heilsar þeim og spyr tíðinda en Gísli lá í rekkju sinni og var þar jarðhús undir niðri og beindi hún raust þegar ef hann þurfti að varast. þeir segja henni nú víg Þorkels og um hvað véla var, segja henni og hversu lengi matlausir þeir hafa verið.

"Eg mun senda ykkur," sagði Auður, "yfir hálsinn í Mosdal til sona Bjartmars. Skal eg fá ykkur vistir og jartegnir að þeir skjóti yfir ykkur nokkru skjóli og geri eg því þetta að eg nenni eigi að kveðja Gísla bjargar við ykkur."

Nú fara sveinarnir í skóg þá er þeir mega eigi finnast og neyta matar því að þeir höfðu lengi matar misst og leggjast síðan niður og sofa er þeir voru mettir því að þeir voru mjög syfjaðir.

30. kafli

Nú er að segja frá Auði að hún gengur inn til Gísla og mælti: "Nú skiptir mig miklu hversu þú vilt til snúa að gera minn sóma meiri en eg er verð."

Hann tók þegar undir og mælti: "Veit eg að þú munt segja mér víg Þorkels, bróður míns."

"Svo er sem þú getur," sagði Auður, "og eru hér komnir sveinarnir og vildu að þér byrgjust að allir saman og þykjast nú ekki traust eiga nema þetta."

Hann svarar: "Ekki má eg það standast að sjá bróðurbana mína og vera ásamt við þá," og hleypur upp og vill bregða sverði og kvað vísu:

Hverr of veit, nema hvassan
hjaldrís dragi Gísli,
átt mun fyrða frétta
færiván, ór spánum,
alls sigrviðir segja
snyrti hrings af þingi,
drýgjum vér til dauða
dáð, Þórketil ráðinn.

Nú sagði Auður þá á brott, "og hafði eg vit til þess að hætta þeim eigi hér."

Gísli sagði að þann veg var og allra best að þeir hittust eigi. Og sefast hann brátt og eru nú kyrr ein tíðindi.

Svo er sagt að nú eru eigi meir eftir en tveir vetur þess er draumkonan sagði hann mundu lifa. Og er á líður er Gísli í Geirþjófsfirði og koma aftur draumar hans allir og harðar svefnfarir og kemur nú jafnan að honum draumkonan sú hin verri og þó hin stundum, hin betri.

Einhverja nótt er það enn að Gísla dreymir að konan sú hin betri kom að honum. Hún sýndist honum ríða gráum hesti og býður honum með sér að fara til síns innis og það þekkist hann. Þau koma nú að húsi einu, því er nær var sem höll væri og leiðir hún hann inn í húsið og þóttu honum þar verða hægindi í pöllum og vel um búið. Hún bað þau þar vera og una sér vel, "og skaltu hingað fara og þá er þú andast," sagði hún, "og njóttu hér fjár og farsælu."

Og nú vaknar hann og kvað vísur nokkrar eftir því sem hann dreymdi:

Heim bauð með sér sínum
saum-Hlökk gráum blakki,
þá var brúðr við beiði
blíð, loftskreyti ríða;
mágrundar, kvazk mundu,
mank orð of þat skorðu,
hneigi-Sól af heilu
hornflæðar mik græða.

Og enn kvað hann:

Dýr lét drápu stjóra
dís til svefns of vísat
lægis elds, þars lágu,
lítt týnik því, dýnur;
ok með sér en svinna
saums leiddi mik Nauma,
sákat hól í hvílu,
hlaut skáld sæing blauta.

Hingat skalt, hvað hringa
Hildr at óðar gildi,
fleina þollr, með Fullu
fallheyjaðar deyja;
þá munt, Ullr, ok öllu,
ísungs, féi þvísa,
þat hagar okkr til auðar
ormláðs, ok mér ráða.

31. kafli

Frá því er sagt einhverju sinni að Helgi var enn sendur á njósn í Geirþjófsfjörð og þykir mönnum áræðilegt að Gísli muni þar. Sá maður fer með honum er Hávarður hét. Hann hafði komið út um sumarið áður og var frændi gests Oddleifssonar. Þeir voru sendir í skóga að höggva efnitré en þó að þetta væri yfirbragð á þeirra ferð þá bjó þó hitt undir að þeir skyldu leita að Gísla og vita ef þeir fyndu fylgsni Gísla. Og einn dag að kveldi sjá þeir eld í kleifunum fyrir sunnan ána. Það var um dagsetursskeið og niðmyrkur sem mest.

Þá spyr Hávarður Helga hvað þá sé til ráðs, "og muntu," segir hann, "vera þessu vanari en eg."

"Einn mun á ger," segir Helgi, "að hlaða hér vörðu á holi þessum er nú stöndum við á og mun þá finnast er ljós dagur er og sér héðan frá vörðunni til kleifanna er skammt er að sjá."

Þetta taka þeir til ráðs. Og er þeir hafa hlaðið vörðuna sagði Hávarður sig syfja svo að hann kveðst ekki mega annað en sofa. Hann gerir svo. En Helgi vakir og hleður það sem ógert var að vörðunni. Og er hann hafði því lokið þá vaknar Hávarður og biður Helga þá sofa en hann kveðst vaka mundu. Og Helgi sefur um hríð. Og á meðan hann sefur tekur Hávarður til verks og ber á brott vörðuna alla og sér hvern steininn í náttmyrkrinu. Og er hann hefur það gert þá tekur hann stein einn mikinn og keyrir niður á bergið nærri höfði Helga svo að jörðin bifaðist við. Og þá sprettur Helgi upp og verður lafhræddur og felmtsfullur og spurði hverju gegndi.

Hávarður sagði: "Maður er í skóginum og hafa margir slíkir komið í nótt."

"Það mun Gísli verið hafa," segir Helgi, "og mun hann hafa orðið var við okkur. Og máttu það skilja, félagi góður," segir hann, "að við munum allir lemjast ef á okkur kemur slíkt grjót. Og er enginn annar á ger en verða á brott sem skjótast."

Nú rennur Helgi sem fljótast hann má hann en Hávarður gengur á eftir og biður Helga eigi hlaupa undan sér en Helgi gaf að því engan gaum og fór sem fætur toguðu. Og að lyktum koma þeir báðir til skips og stíga þar á og ljósta síðan árum í sjó og róa sem ákafast og létta eigi fyrr sinni ferð en þeir koma heim í Otradal og segir Helgi að hann er vís orðinn hvar Gísli er niður kominn.

Eyjólfur víkst við skjótt og fer þegar við tólfta mann og er það í för Helgi og Hávarður. Þeir fara til þess er þeir koma í Geirþjófsfjörð og ganga um alla skóga að leita vörðunnar og fylgsnis Gísla og fundu hvorugt. Nú spyr Eyjólfur Hávarð hvar þeir settu vörðuna.

Hann svarar: "Ekki má eg það vita því að bæði var að eg var svo syfjaður að eg vissi fátt frá mér, enda hlóð Helgi þá vörðuna er eg svaf. Eig þykir mér örvænt að Gísli hafi orðið var við okkur og hafi borið brott vörðuna þá er lýsti og við vorum í brott farnir."

Þá mælti Eyjólfur: "Afauðið verður oss mjög um þetta mál og munum vér aftur snúa," og svo gera þeir og kveðst Eyjólfur áður vilja hitta Auði.

Þeir koma nú á bæinn og ganga inn og settist Eyjólfur enn á tal við Auði.

Hann tekur svo til orðs: "Eg vil eig kaup við þig Auður," segir hann, "að þú segir mér til Gísla en eg mun gefa þér þrjú hundruð silfurs þau sem eg hef tekið til höfuðs honum. Þú skalt og eigi við vera er vér tökum hann af lífi. Það skal og fylgja að eg mun fá þér ráðahag þann að öllu sé betri en sjá hefur verið. Máttu og á það líta," segir hann, "hversu óhallkvæmt þér verður að liggja í eyðifirði þessum og hljóta það af óhöppum Gísla og sjá aldrei frændur og nauðleytamenn."

Hún svarar: "Þar þykir mér óvænst um," segir hún, "að vér verðum um það sátt að þú fáir mér það gjaforð að mér þyki jafnt við þetta. En þó er það satt sem mælt er að fé er best eftir feigan og lát mig sjá hvort fé þetta er svo mikið og frítt sem þú segir."

Hann steypir nú fénu í kné henni og hefur hún hönd í en hann telur og tjáir fyrir henni. Guðríður, fóstra hennar, tekur að gráta.

32. kafli

Síðan gengur hún út og til móts við Gísla og segir honum: "Fóstra mín er nú vitlaus orðin og vill svíkja þig."

Gísli mælti: "Ger þú þér gott í hug því að eigi mun mér það að fjörlesti verða að Auður blekki mig," og kvað vísu:

Segja menn, at manni
mjöð-Hlín hafi sínum,
fjarðar elgs, of folgit
fleyvangs hugi ranga;
en grjótöluns grátna
golffit vitum sitja;
hykkat hælibrekku
hrannlogs at því sanna.

Eftir þetta fer mærin heim og segir ekki hvert hún hefur farið.

Eyjólfur hefur þá talið silfrið en Auður mælti: "Í engan stað er féð minna eða verra en þú hefur sagt. Og mun þér nú þykja eg heimilt eiga að gera af slíkt er mér sýnist."

Eyjólfur tekur því glaðlega og bað hana að vísu gera af slíkt er hún vill.

Auður tekur nú féð og lætur koma í einn stóran sjóð, stendur hún síðan upp og rekur sjóðinn með silfrinu á nasir Eyjólfi svo að þegar stekkur blóð um hann allan og mælti: "Haf nú þetta fyrir auðtryggi þína og hvert ógagn með. Engin von var þér þess að eg myndi selja bónda minn í hendur illmenni þínu. Haf nú þetta og með bæði skömm og klæki. Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig. En þú munt ekki að heldur fá það er þú vildir."

Þá mælti Eyjólfur: "Hafið hendur á hundinum og drepi, þó að blauður sé."

Hávarður tekur þá til orða: "Þó er för vor helsti ill þó að vér vinnum eigi þetta níðingsverk og standi menn upp og láti hann eigi þessu ná."

Eyjólfur mælti: "Satt er hið fornkveðna; án er ills gengis nema heiman hafi."

Hávarður var vinsæll maður og voru margir búnir að veita honum lið til þessa en í annan stað að firra Eyjólf óhappi og verður hann nú svo búið að hafa og fer á brott við þetta.

En áður en Hávarður gengi út mælti Auður: "Ekki mun sannlegt að halda skuld þeirri er Gísli á að gjalda þér og er hér fingurgull er eg vil að þú hafir."

"Ekki myndi eg þetta þó heimt hafa," segir Hávarður.

"Eg vil nú þó gjalda," segir Auður.

Hún gaf honum þó raunar gullið fyrir liðveislu sína. Hávarður fékk sér hest og fer suður á Strönd til Gests Oddleifssonar og vill eigi lengur vera með Eyjólfi. Eyjólfur fer heim í Otradal og unir illa sinni ferð enda þótti mönnum þessi ferð hin hæðilegasta.

33. kafli

Líður nú svo sumarið að Gísli er í jarðhúsum sínum og er var um sig og ætlar hann nú ekki í brott. Þykir honum nú fokið vera í öll skjól; nú eru og liðnir draumavetur hans gervallir.

Það ber enn til einhverja nótt um sumarið að Gísli lætur illa í svefni. En er hann vaknar spyr Auður hvað hann hefði dreymt.

Hann segir að nú kom að honum draumkonan sú hin verri og mælti svo: "Nú skal eg því öllu bregða er hin betri draumkonan mælti við þig og skal eg þess ráðandi að þér skal þess ekki að gagni verða er hún hefur mælt."

Þá kvað Gísli vísu:

Skuluða it, kvað skorða
skapkers, saman verja
svá hefr ykkr til ekka
eitr góðmunar leitat;
allvaldr hefir aldar
erlendis þik sendan
einn ór yðru ranni
annan heim at kanna.

"Það dreymdi mig enn," sagði Gísli, "að sjá kona kom til mín og bakk á höfuð mér dreyruga húfu og þó áður höfuð mitt í blóði og jós á mig allan svo að eg varð alblóðugur."

Gísli kvað vísu:

Hugðak þvá mér Þrúði
þremja hlunns ór brunni
Óðins elda lauðri
auðs mína skör rauða
ok hyrkneyfa hreifa
hönd væri því bandi
báls í benja éli
blóðrauð vala slóðar.

Og enn kvað hann:

Hugðak geymi-Göndul
gunnelda mér flada
of rakskorinn reikar
rúf dreyrugri húfu,
væri hendr á henni
í hjörregni þvegnar;
svá vakði mik Sága
saums ór mínum draumi.

Nú gerðist svo mikið um drauma Gísla að hann gerir svo myrkhræddan að hann þorir hvergi einn saman að vera og þegar hann leggur sín augu saman þá sýnist honum hin sama kona. Það var enn eina nótt að Gísli lét raunlítt í svefni. Auður spurði hvað fyrir hann bæri.

"Það dreymdi mig," segir Gísli, "að menn kæmu að oss og væri Eyjólfur í för og margt annarra manna og hittumst vér og vissi eg að áburðir urðu með oss. Einn þeirra fór fyrstur, grenjandi mjög og þóttist eg höggva hann sundur í miðju og þótti mér vera á honum vargs höfuð. Þá sóttu margir að mér; eg þóttist hafa skjöldinn í hendi mér og verjast lengi."

Gísli kvað þá vísu:

Vissak fjandr at fundi,
fekk innan lið minna,
ár þótt eigi værak
andaðr, at mér standa,
gætinn vér, en væri
valtafn í mun hrafni,
fríðr í fögru blóði
faðmr þínn roðinn mínu.

Og enn kvað hann:

Máttut skildi skaldi,
skjöldr kom mér að haldi,
gátum hug, við hneiti,
hjör gellanda bella,
áðr an mik þeirs mínu
munu aldrlagi valda,
gnýr var hjörs að heyra
hár, ofrliði báru.

Og enn kvað hann:

Sték of einn, áðr ynni
árflognis mik sáran,
hrælækjar gafk hauki
huggendr, munins tuggu;
sneið at sínu ráði
sverðs egg í tvau leggi,
missti menja lestir,
mannsbót var þat, fóta.

Nú líður á haustið og minnkar ekki draumana og heldur er vaxandi gangur að þeim. Það var eina nótt er Gísli lét enn illa í svefni. Auður spurði þá enn hvað fyrir hann bæri. Gísli kvað vísu:

Hugðak blóð of báðar,
benvíðis, mér síður,
þann höfum vér at vinna
vílsinn, ofan rinna;
slíkt dreymir mik, seima,
sekt emk við her nekkvat,
bíðum brodda hríðar,
ber-Lofn, es ek sofna.

Og enn kvað hann vísu:

Hugðak blóð of báðar,
baug-Hlín, gnáar mínar
herðar hvössu sverði
hrænets regin setja
ok valnæra væri,
Vár, af miklu fári,
líkn reynum svá, lauka,
lífs vánir mér gránar.

Og enn kvað hann:

Hugðak hlífar flagða
hristendr af mér kvista
stór fingum ben, brynju
báðar hendr með vendi;
enn fyr mækis munni
minn hugðak, Syn tvinna,
oss gein hjörr of hjassa,
hjalmstofn ofan klofna.

Og enn kvað hann vísu:

Hugðak Sjöfn í svefni
silfrbands of mér standa
gerðr hafði sú gerðu;
grátandi, brá váta,
ok eld-Njörun öldu
allskyndila byndi,
hvat hyggr mér, en mæra,
mín sár, und því váru?

34. kafli

Nú er Gísli heima það sumar og er nú kyrrt. Síðan kemur sumarnótt síðasta. Þá er þess getið að Gísli mátti ekki sofa og ekki þeirra þriggja. Veðri var þann veg farið að var á logn mikið; hélufall var og mikið. Þá kveðst Gísli vilja fara frá húsum og til fylgsnis síns suður undir kleifarnar og vita ef hann mætti sofna. Nú fara þau öll og eru þær í kyrtlum og draga kyrtlarnir döggslóðina. Gísli hafði kefli og reist á rúnir og falla niður spænirnir.

Þau koma til fylgsnisins. Hann leggst niður og vill vita ef hann gæti sofið en þær vaka. Rennur á hann svefnhöfgi, og dreymir hann að fuglar kæmi í húsið er læmingjar heita, þeir eru meiri en rjúpkerar og létu illilega of höfðu volkast í roðru og blóði.

Þá spurði Auður hvað hann hafði dreymt. "Nú voru enn eigi svefnfarir góðar."

Gísli kvað vísu:

Mér bar hljóm í heimi,
hör-Bil, þás vit skilðumk,
skekkik dverga drykkju,
dreyra sals fyr eyru;
ok hjörraddar hlýddi
heggr rjúpkera tveggja,
koma mun dals á drengi
dögg, læmingja höggvi.

Og er þetta er tíðinda heyra þau mannamál og er Eyjólfur þar kominn við hinn fimmtánda mann og hafa áður komið til húss og sjá döggslóðina sem vísað væri til. Og er þau verða vör við mennina, ganga þau upp á kleifarnar þar sem vígi er best og hefur hvor þeirra þusl í hendi mikla. Þeir Eyjólfur ganga að neðan.

Hann mælti þá við Gísla: "Hitt er nú ráð að fara eigi undan lengra og láta þig eigi elta sem huglausa menn því að þú ert kallaður fullhugi mikill. Hefur nú orðið langt funda á milli og það mundum vér vilja að sjá væri hinn efsti."

Gísli svarar: "Sæk þú að karlmannlega fyrir því að eg skal ekki lengra undan fara. Er það og þín skylda mest að sækja fyrstur að mér því að þú átt sakir við mig meiri en aðrir menn, þeir sem hér eru í för."

"Eg mun það ekki undir þér eiga," segir Eyjólfur, "að skipta liði mínu sem mér líkar."

"Það var og líkara," segir Gísli, "að grey þitt mundi eigi þora við mig vopnum að skipta."

Eyjólfur mælti þá til Njósnar-Helga: "Það væri nú frægð mikil, að þú réðir fyrstur upp á kleifarnar að Gísla og mundi það ágæti lengi upp vera.

"Oft hef eg það reynt," segir Helgi, "að þú vilt aðra hafa fyrir þér oftast þar er nokkur raun er að en fyrir því að þú eggjar svo ákaflega þá skal eg til ráða en þú fylg mér drengilega og gakk næst mér ef þú ert eigi með öllu blauður."

Helgi ræður nú til þar sem honum þykir vænst og hefur í hendi öxi mikla. Gísli var svo búinn að hann hafði í hendi öxi og gyrður sverði og skjöld á hlið; hann var í kufli gráum og hafði gyrt að sér með reipi. Nú skopar Helgi skeið og hleypur upp á kleifarnar að Gísla. Hann snarar í móti Helga og reiðir upp sverðið og rekur á lendarnar svo að í sundur tók manninn í miðju og fellur sér hvor hluturinn ofan fyrir kleifarnar. Eyjólfur komst upp annars staðar og kom þar Auður í móti honum og lýstur á hönd honum með lurki svo að úr dró allt aflið úr og hratar hann ofan aftur.

Þá mælti Gísli: "Það vissi eg fyrir löngu að eg var vel kvæntur en þó vissi eg eigi að eg væri svo vel kvæntur sem eg er. En minna lið veittir þú mér nú en þú mundir vilja eða þú ætlaðir, þó að tilræðið væri gott, því að eina leið mundu þeir nú hafa farið báðir."

35. kafli

Þá fara til tveir menn að halda þeim Auði og Guðríði og þykjast þeir hafa ærið að vinna. Nú sækja tólf að Gísla og komast upp á kleifarnar. En hann ver sig bæði með grjóti og vopnum svo að því fylgdi mikil frægð.

Nú hleypur að förunautur Eyjólfs einn og mælti til Gísla: "Legg þú af við mig vopnin þau hin góðu er þú berð og allt saman og Auði konu þína."

Gísli svarar: "Tak þú þá við ódeiglega því að hvorugt samir, vopnin, þau er eg hef átt, né svo konan."

Sjá maður leggur til Gísla með spjóti. En Gísli heggur mót og spjótið af skaftinu og verður höggið svo mikið að öxin hljóp í helluna og brestur af hyrnan. Hann kastar þá öxinni en grípur til sverðsins og vegur með því en hlífir sér með skildinum. Þeir sækja nú að rösklega en hann verst vel og drengilega; komu þeir nú hart saman. Gísli vó þá enn tvo menn og eru nú fjórir látnir.

Eyjólfur bað þá sækja að sem karlmannlegast, "fáum vér hart af," segir Eyjólfur, "og væri það einskis vert ef góð yrðu erfiðislaunin."

36. kafli

Maður er nefndur Sveinn er fyrstur réðst í móti Gísla. Gísli heggur til hans og klýfur hann í herðar niður og fleygir honum ofan fyrir hamarinn. Nú þykjast þeir eigi vita hvað staðar næmi manndráp þessa manns.

Gísli mælti þá til Eyjólfs: "Það mundi eg vilja að þau þrjú hundruð silfurs er þú hefur tekið til höfuðs mér, skaltu hafa dýrast keypt og það mundi eg vilja að þú gæfir til þess önnur þrjú hundruð silfurs að við hefðum aldrei fundist og muntu taka svívirðing fyrir mannskaða."

Nú leita þeir sér ráðs og vilja eigi fyrir líf sitt frá hverfa. Sækja þeir nú að honum tveggja vegna og fylgja þeir Eyjólfi fremstir er annan heitir Þórir en annar Þórður, frændur Eyjólfs; þeir voru hinir mestu garpar. Og er aðsóknin þá bæði hörð og áköf og fá þeir nú komið á hann sárum nokkrum með spjótalögum en hann verst með mikilli hreysti og drengskap. Og fá þeir svo þungt af honum af grjóti og stórum höggum svo að enginn var ósár, sá er að honum sótti, því að Gísli var eigi missfengur í höggum. Nú sækja þeir Eyjólfur að fast og frændur hans; þeir sáu að þar lá við sæmd þeirra og virðing. Leggja þeir þá til hans með spjótum svo að út falla iðrin en hann sveipar að sér iðrunum og skyrtunni og bindur að fyrir neðan með reipinu.

Þá mælti Gísli að þeir skyldu bíða lítt það, "munuð þér nú hafa þau málalok sem þér vilduð."

Hann kvað þá vísu:

Fals hallar skal Fulla
fagrleit, sús mik teitir,
rekkilát at rökkum,
regns, sínum vin fregna;
vel hygg ek, þótt eggjar
ítrslegnar mik bíti;
þá gaf sínum sveini
sverðs minn faðir herðu.

Sjá er hin síðasta vísa Gísla. Og jafnskjótt er hann hafði kveðið vísuna hleypur hann ofan af hamrinum og keyrir sverðið í höfuð Þórði, frænda Eyjólfs, og klýfur hann allt til beltisstaðar enda fellur Gísli á hann ofan og er þegar örendur. En þeir voru allir mjög sárir förunautar Eyjólfs. Gísli lét líf sitt með svo mörgum og stórum sárum að furða þótti í vera. Svo hafa þeir sagt að hann hopaði aldrei og eigi sáu þeir að högg hans væri minna hið síðasta en hið fyrsta.

Lýkur þar nú ævi Gísla og er það alsagt að hann hefur hinn mesti hreystimaður verið þó að hann væri eigi í öllum hlutum gæfumaður.

Nú draga þeir hann ofan og taka af honum sverðið, götva hann þar í grjótinu og fara ofan til sjávar. Þá andaðist hinn sjötti maður við sjó niðri. Eyjólfur bauð Auði að hún færi með honum en hún vildi eigi.

37. kafli

Nú fer Eyjólfur heiman við hinn tólfta mann suður til fundar við Börk hinn digra og sagði honum þessi tíðindi og allan atburð.

Og varð Börkur kátur við þetta og biður Þórdísi taka vel honum Eyjólfi, "og mun þú ást þá hina miklu er þú unnir Þorgrími, bróður mínum og ger vel við Eyjólf."

"Gráta mun eg Gísla, bróður minn," segir Þórdís; "en mun eigi vel fagnað Gísla bana ef grautur er ger og gefinn?"

Og um kveldið er hún bar mat fram fellir hún niður spónatrogið. Eyjólfur hafði lagt sverð það í milli stokks og fóta sér er Gísli hafði átt. Þórdís kennir sverðið og er hún lýtur niður eftir spónunum þreif hún meðalkaflann á sverðinu og leggur til Eyjólfs og vildi leggja á honum miðjum. Gáði hún eigi að hjalti horfði upp og nam við borðinu; hún lagði neðar en hún hafði ætlað og kom í lærið og var það mikið sár. Börkur tekur Þórdísi og snarar af henni sverðið. Þeir hlaupa upp allir og hrinda fram borðunum og matnum. Börkur bauð Eyjólfi sjálfdæmi fyrir þetta og gerði hann full manngjöld og kveðst gert mundu meira ef Berki hefði verr í farið.

Þórdís nefnir sér þá votta og segir skilið við Börk og kveðst eigi skyldu koma síðan í sömu sæng hjá honum og það endi hún. Fór hún þá að búa á Þórdísarstöðum út á Eyri. En Börkur er eftir að Helgafelli, til þess er Snorri goði kom honum á brott og fór Börkur þá að búa í Glerárskógum. En Eyjólfur fer heim og unir illa við sína ferð.

38. kafli

Synir Vésteins fara til gests, frænda síns, og skora á hann að hann komi þeim utan með ráðum sínum og Gunnhildi, móður þeirra, og Auði er Gísli hafði átt og Guðríði Ingjaldsdóttur og Eirmundi bróður hennar. Fara þau öll utan í Hvítá, kom Gestur þeim utan með fé sínu.

Þau voru skamma stund úti og komu við Noreg.

Gengur Bergur á stræti og vill kaupa þeim brúðarrúm í kaupangi og tveir menn með honum. Þeir mæta tveim mönnum og var annar í skarlatsklæðum, ungur maður og mikill vexti; sá spurði Berg að nafni. Hann sagði til hið sanna um nafn sitt og kyn því að hann ætlaði að hann mundi þess víðar koma a hann mundi njóta föður síns en gjalda. En sá er í skarlatsklæðunum var brá sverði og hjó Berg banahögg. Það var Ari Súrsson, bróðir Gísla og Þorkels. Förunautar Bergs fóru til skips og sögðu tíðindin. Stýrimaður kom þeim undan og tók Helga far til Grænlands. Helgi kom þangað og þroskaðist þar og þótti hinn besti drengur og voru menn sendir til höfuðs honum en þess varð eigi auðið. helgi týndist í veiðiför og þótti það mikill skaði.

Þær Auður og Gunnhildur fara til Danmerkur í Heiðabæ, tóku þær við trú og gengu suður og komu eigi aftur.

Geirmundur var eftir í Noregi og kvongaðist og varð vel að þroska. Guðríður, systir hans, var manni gefin og þótti skýr kona og eru margir menn frá henni komnir.

Ari Súrsson fór til Íslands. Hann kom í Hvítá og seldi skipið en keypti sér land að Hamri og bjó þar nokkra vetur. Víða hefur hann búið á Mýrum og eru menn komnir frá honum.

Lúkum vér hér Gísla sögu Súrssonar.