Format: Web | XHTML | Text | PDF | EPUB - Citation
Versions:


Ölkofra saga

1. kafli

Þórhallur hét maður. Hann bjó í Bláskógum á Þórhallsstöðum. Hann var vel fjáreigandi og heldur við aldur er saga sjá gerðist. Lítill var hann og ljótur. Engi var hann íþróttamaður en þó var hann hagur við járn og tré. Hann hafði þá iðju að gera öl á þingum til fjár sér en af þessi iðn varð hann brátt málkunnigur öllu stórmenni því að þeir keyptu mest mungát. Var þá sem oft kann verða að mungátin eru misjafnt vinsæl og svo þeir er seldu. Engi var Þórhalldur veifiskati kallaður og heldur sínkur. Honum voru augu þung. Oftlega var það siður hans að hafa kofra á höfði og jafnan á þingum en af því að hann var maður ekki nafndrægur þá gáfu þingmenn honum það nafn er við hann festist að þeir kölluðu hann Ölkofra.

Það varð til tíðinda eitt haust að Ölkofri fór í skóg þann er hann átti og ætlaði að brenna kol sem hann gerði. Skógur sá var upp frá Hrafnabjörgum og austur frá Lönguhlíð. Hann dvaldist þar nokkura daga og gerði til kola og brenndi síðan viðinn og vakti um nótt yfir gröfunum. En er leið á nóttina þá sofnaði hann en eldur kom upp í gröfunum og hljóp í limið hjá og logaði það brátt. Því næst hljóp eldur í skóginn. Tók hann þá að brenna. Þá gerist á vindur hvass. Nú vaknaði Ölkofri og varð því feginn að hann gæti sér forðað. Eldurinn hljóp í skóginn. Brann sá skógur fyrst allur er Ölkofri átti en síðan hljóp eldur í þá skóga er þar voru næstir og brunnu skógar víða um hraunið. Er þar nú kallað á Sviðningi.

Þar brann skógur sá er kallaður var Goðaskógur. Hann áttu sex goðar. Einn var Snorri goði, annar Guðmundur Eyjólfsson, þriðji Skafti lögmaður, fjórði Þorkell Geitisson, fimmti Eyjólfur son Þórðar gellis, sétti Þorkell trefill Rauða-Bjarnarson. Þeir höfðu keypt skóga þá til þess að hafa til nytja sér á þingi. Eftir kolbrennu þessa fór Ölkofri heim. En tíðindi þessi spurðust víða um héruð og komu fyrst til Skafta þeirra mann er fyrir sköðum höfðu orðið. Um haustið sendi hann orð norður til Eyjafjarðar með þeim mönnum er ferð áttu milli héraða og lét segja Guðmundi skógabrennuna og það með að það mál var févænlegt. Slík erindi fóru og vestur í héruð til þeirra manna er skóga höfðu átt. Fóru þá sendiboð um veturinn eftir milli þeirra allra og það með að goðar þeir sex skyldu hittast á þingi og vera allir að einu ráði en Skafti skyldi mál til búa því að hann sat næst.

En er vor kom og stefnudagar þá reið Skafti til með marga menn og stefndi Ölkofra um skógabrennuna og lét varða skóggang. Ölkofri var málóði og heldur stórorðu, lét þess von ef vinir hans kæmu til þings að Skafti mundi eigi jafnstórlega láta. Skafti svaraði fá og reið á brott.

Um sumarið eftir komu goðar þeir sex til þings er skóga höfðu átt og höfðu brátt stefnu sín á milli og var það ráðið að mál skyldi fram hafa en gera fé allmikið ella hafa sjálfdæmi.

Ölkofri kom til þings og átti mungát að selja, kom þá til fundar við vini sína þá sem vanir voru að kaupa öl að honum. Hann bað þá liðs og bauð þeim öl að selja en þeir svöruðu allir á einn veg að þau ein kaup hefðu þeir við ást að þeim var ekki vilnað í, sögðu að þeir mundu eigi þeim birni beitast að deila um mál hans við ofureflismenn slíka og vildi engi maður heita honum liði og engi vildi eiga kaup við hann. Þótti honum þá heldur vandast málið. Gekk hann þá milli búða og fékk þá engi andsvör þótt hann bæði menn liðs. Var þá lokið stórleika hans og drambi.

Það var um dag einn að Ölkofri kom til búðar Þorsteins Síðu-Hallssonar og fekk fyrir hann og bað sér liðs. Þorsteinn veitti honum slík andsvör sem aðrir.

2. kafli

Maður er nefndur Broddi Bjarnason, mágur Þorsteins. Hann sat hið næsta honum. Broddi var þá á tvítugsaldri. Ölkofri gekk út með búðinni þá er Þorsteinn hafði synjað honum liðs.

Broddi mælti þá: "Svo líst mér mágur sem þessi maður muni ekki vel til skógarmanns felldur og er það lítilræði að sekja hann þeim er miklir þykjast fyrir sér. Nú er það drengskapur mágur að veita honum lið og mun þér það sýnast ráð."

Þorsteinn svarar: "Veittu honum lið ef þú ert allfús til en veita mun eg þér brautargengi til þess sem annars."

Broddi mælti við mann einn að ganga skyldi eftir Ölkofra. Sá gerði svo, gekk út og þar hjá búðarvegginum hitti hann Ölkofra. Stóð hann þar og grét aumlega.

Þessi maður bað hann ganga inn í búðina og taka af sér ópið "og eigi skaltu snökta er þú kemur til Þorsteins."

Ölkofri varð grátfeginn og gerði svo.

En er þeir komu fyrir Þorstein þá tók Broddi til orða: "Svo þykir mér sem Þorsteinn vilji þér lið veita og þykir honum þetta klengisök vera. Máttir þú eigi gæta skóga þeirra er þú brenndir þann er þú áttir."

Ölkofri mætli: "Hver er sjá hinn sæli maður er nú mælir við mig?"

"Broddi heiti ég," segir hann.

Þá mælti Ölkofri: "Hvert er hér Broddi Bjarnason?"

"Svo er," segir Broddi.

"Bæði er," kvað Ölkofri, "að þú ert göfulegri að sjá en aðrir menn enda áttu til þess varið," for hann þar mörgum orðum um og gerist þá hraustur í máli.

"Hitt er nú til," kvað Þorsteinn, "ef þú ert allfús til Broddi að veita honum nokkuð lið er þó lofar hann þig svo mjög."

Broddi stóð þá upp og mart manna með honum. Gekk hann út úr búðinni. Hann brá þá Ölkofra á einmæli og ræddi við hann. Síðan ganga þeir upp á völluna. Var þar fyrir mart manna. Höfðu þeir þá verið í lögréttu. En er aðrir menn höfðu í brott gengið þá sátu þeir eftir Guðmundur og Skafti og ræddu um lög.

Broddi og förunautar hans reikuðu um völluna en Ölkofri gekk í lögréttuna.

Hann féll til jarðar allur og kraup til fóta með þeim og mælti: "Sæll er eg orðinn er eg hefi ykkur fundið hina dýrlegu menn og höfðingja mína eða munuð þið nokkuð vilja mér hjálpa hinir góðu menn þót eg sé ómaklegur því að eg verð nú allur fyrir borði nema þið dugið mér?"

Seint er að telja öll orð Ölkofra þau er hann mælti og lét hann ssem aumlegast á allan hátt.

Þá mætli Guðmundur til Skafta: "Allvesallega lætur þessi maður."

Skafti svarar: "Hvar er nú Ölkofri stórlæti þitt? Ólíklegt þótti þér í vor þá er vér fórum stefnuför að sá mundi þinn hinn besti kostur að leggja málið undir mig eða hversu drjúgir verða þeir þér nú í liðveilsunni höfðingjarnir er þú hættir mér í vor?"

Ölkofri segir: "Ær var eg þá og þó verr er eg vildi það eigi að þú dæmdir um mitt mál enda gettu eigi höfðingja því að þeir eru örhjarta allir þegar þeir sjá ykkur að koma. Sæll væri eg þá ef eg næði því að koma undir ykkur mínu máli. Eða á eg nokkura von þess? En vorkunn er það Skafti minn að þú hafir mér svo reiðst að nú sé þess engi kostur. Var eg þá fól og afglapi er eg neitaði gerð þinni en eg þori eigi að sjá þá grimmu menn er þegar munu drepa mig ef þið hjálpið mér eigi við."

Hann mælti oft hið sama, sagði svo að hann þóttist sæll ef þeir skyldu dæma hans mál: "Þykir mér það mitt fé best komið er þið hafið."

Guðmundur mælti til Skafta: "Ekki ætla eg þenna vel til sektar fallinn eða mun eigi hitt heldur ráð að við gerum hann feginn og látum hann kjósa menn til gerðar þessar? Þó veit eg eigi hversu hinum líkar er þetta mál eiga við hann."

"Nú þá hinir góðu menn," segir Ölkofri, "veitið mér þá nokkurn dugnað eftir."

Skafti mælti: "Undir mér er lykt máls þessa því að eg fer með sökina. Munum við til þess hætta Ölkofri að við Guðmundur gerum um og lúkum málinu. Get eg að þér muni það duga við fullting okkart."

Þá stóð Ölkofri upp og takast þeir síðan í hendur. Nefndi Ölkofri þegar votta hvern að öðrum og er vottnefna kom upp þá drifu menn að. Nefndi Ölkofri fyrst Brodda og förunauta hans.

Skafti mælti: "Sökunautur vor biður okkur Guðmund til gerðar um mál þetta en þó að vér höfum það staðfest með oss er skaða höfum fengið að sjálfdæmi skyldi fyrir koma þá viljum við Guðmundur það nú veita honum að við gerum heldur um en aðrir ef Þórhallur vill það kjörið hafa. Skuluð þér þess nefndir vottar að fyrir mál þetta skal fé gera en eigi mannsektir. Eg handsala niðurfall að sökum þeim er eg stefndi í vor."

Síðan slitu þeir handlaginu.

Þá mælti Skafti við Guðmund: "Hví mun eigi vel að við lúkum þessu af?"

"Vel má það," segir Guðmundur.

Ölkofri mælti: "Ekki skuluð þið hrapa því svo því að eg er ekki ráðinn í að kjósa ykkur heldur en aðra menn."

Guðmundur mælti: "Svo var skilt að við skyldum gera nema þú kjörir heldur þá aðra er þetta mál eiga með okkur."

Ölkofri segir: "Því neitaði eg allan tíma að þeir skyldu gera en svo var skilið í handlagi að eg skyldi kjósa tvo menn til þá er eg vildi."

Þá var leitað um handsalsvætti en þingmenn Guðmundar og Skafta deildust allmjög að hversu skilið var en Broddi og förunautar hans skáru skýrt úr að svo hafði skilið verið sem Ölkofri sagði að hann skyldi kjósa menn til gerðar.

Þá mælti Skafti: "Hvaðan rann sjá alda undir Ölkofri? Sé eg að þú heldur nokkuru rakkara halanum en fyrir stundu áðan eða hverja menn muntu kjósa til gerðar?"

Ölkofri mælti: "Ekki skal lengi að því hyggja. Eg kýs Þorstein Hallsson og Brodda Bjarnason mág hans og ætla eg að þá sé málið beutr komið en þið gerið um."

Skafti sagði að hann ætlaði að það mál væri vel komið þótt þeir gerðu um "því að málaefni voru eru brýn og góð en þeir eru svo vitrir að þeir munu sjá kunna hversu þungs þú ert af verður."

Ölkofri gekk þá í lið Brodda og fóru menn heim til búða.

3. kafli

Eftir um daginn skyldi upp segja sætt. Báru þeir þá ráð sín saman Þorsteinn og Broddi. Vildi Þorsteinn meira gera en Broddi kvað það skýrst að gera svo sem hann vildi og segja þá sjálfur sátt upp. Broddi bað hann kjósa hvort er hann vildi, segja sátt upp eða sitja fyrir svörum ef nokkurir menn yrðu til að leiða á gerðina. Þorsteinn lést heldur vilja segja sátt upp en skipta hnæfilyrðum við þá goðana. Síðan sagði Þorsteinn að Ölkofri skyldi eigi lengi þurfa síns hluta að bíða, kvað þá skyldu gjaldast féið allt að Lögbergi.

Síðan gengu þeir til Lögbergs. En er lokið var þar lögskil að mæla þá spurði Þorsteinn Hallsson hvort goðar þeir væru að Lögbergi er mál áttu að kæra við Ölkofra: "Mér er svo sagt að við Broddi skulum gera um mál það. Munum við nú upp lúka gerðinni ef þér viljið til hlýða."

Þeir sögðust góðs að vænta að þeir mundu réttlátir í gerðinni.

Þá mælti Þorsteinn: "Svo líst okkur á sem lítils sé fyrir vert um skóga yðra félaga. Voru þeir félitlir og fjárlægir yður itl gagns. Var eigngirni mikil í þeim mönnum er góðs áttu kost og kalla það meigu sinni annarri en hann mátti eigi ábyrgjast yðvarn skóg er hann brenndi sinn skóg og eru slíkt voðaverk. En fyrir því að það er í gerð lagt þá skal gera nokkuð fyrir. Þér sex menn hafið átt skógana. Nú viljum vér gera sex alnar hverjum yðrum og skal það gjaldast hér þegar."

Broddi hafði búist og stikað vaðmál í sundur og kastar hann þá sér hverjum stúf til þeirra og mælti: "Slíkt kalla eg argaskatt."

Skafti segir: "Auðsætt er það Broddi að þú ert fús til að eiga illt við oss. Hefir þú mjög stungist til þessa máls og ferð þú lítt þverafæti að fjandskap við oss. Kann vera að oss falli önnur mál lettara."

Broddi svarar: "Þurfa muntu þess Skafti að taka meira á öðrum sakferlum ef skríða skal í það skarð er Ormur frændi þinn reytti af þér fyrir mansöngsdrápu er þú ortir um konu hans. Var það illa gert enda var það illa goldið"

Þá mælti Þorkell trefill: "Allmjög missýnist slíkum manni sem Broddi er. Hann vill hafa vináttu Ölkofra eða nokkurar mútugjafir og kaupa svo að gera sér að óvinum slíka menn sem hann hefir í fangi."

Broddi segir: "Ekki er það missýni að halda einurð sinni þótt mannamunur sé með yður Ölkofra. En hitt var glámsýni í vor er þú reiðst til vorþings að þú varaðist eigi það er Steingrímur hafði stóðhest selfeitan og lagðist hann upp að baki þér en merin sú er þú reiðst var mögur og féll hún undir þér og hefi eg eigi spurt til sanns hverjum þá slauðraði en hitt sáu menn að þú varst lengi fastur því að hesturinn lagði fæturna fram yfir kápuna."

Eyjólfur Þórðarson mætli: "Það er satt að segja að sjá maður hefur allmjög dregið burst úr nefi oss enda mælir Rán og regin við oss á sogört ofan."

Broddi segir: "Eigi hefi eg dregið burst úr nefi yður. Þá var dregin burst úr nefi þér er þú fórst norðu til Skagafjarðar og stalst öxnum frá Þorkeli Eiríkssyni en Guðdala-Starri reið eftir þér og sástu þá eftirförina er þér voruð komnir í Vatnsdal. Varðstu þá svo hræddur að þú brást þér í merarlíki og voru slíkt firn mikil en þeir Starri ráku aftur öxnina og var það satt að hann dró burst úr nefi þér."

Þá mælti Snorri goði: "Allt er oss annað tiltækilegra en deila hér illyrðum við Brodda en það er líkast að vér gerum oss minnisamt um fjandskap þenna er Broddi lýsir við oss ef vér komumst í færi."

Broddi segir: "Um snýrð þú þá sæmdunum Snorri ef þú leggur allan hug á að hefna mér en þú hefnir eigi föður þíns."

Þá mælti Þorkell Geitisson: "Þetta er líkast að þú hafir það helst af nafni því er þú ert eftir heitinn að hann vildi hvers manns hlut óhæfan af sér verða láta og það annað að menn þoli eigi og liggir þú drepinn er stundir líða."

Broddi segir: "Engi vegur er okkur í frændi að yppa hér fyrir alþýðu ógæfu frænda vorra en ekki skal þess dylja er margir vita að Brodd-Helgi var veginn. Var mér og það sagt að faðir þinn tæki ofarlega til þeirra launanna en hitt ætla eg ef þú leitar að er þú munir fingrum kenn það er faðir minn markaði þig í Böðvarsdal."

Eftir það skildust þeir og engu heim til búðar.

Er nú Ölkofri úr sögunni.

4. kafli

Annan dag eftir gekk Broddi til búðar Þorkels Geitssonar og inn´i búðina og kastaði orðum á Þorkel. Hann svaraði fá og var hinn reiðasti.

Broddi mælti: "Því er eg hér kominn frændi að eg sá missmíð á því er eg talaði við þig. Vil eg þess biðja að þú virðir mér það til bernsku og óvisku en látum eigi frændsemi okkra að verri. Er hér sverð búið er eg vil gefa þér. Vil eg að það fylgi að þú farir að heimboði til mín í sumar og skal það lýsa að eigi skulu betri gripir í minni eigu en þeir er þú skalt þiggja."

Þorkell tók þessu þakksamlega, sagði að hann var þess fús að þeir gerðu góða sína frændsemi. Gekk þá Broddi heim.

Það var aftaninn fyrir þinglausnir að Broddi gekk vestur yfir á en við brúarsporðinn hittast þeir Guðmundur og varð ekki að kveðjum.

Og er þeir skildust þá veik Guðmundur aftur og mælti: "Hverja leið skaltu ríða af þingi Broddi?"

Hann sneri aftur og mælti: "Ef þér er forvitni á því mun eg ríða um Kjöl til Skagafjarðar, þá til Eyjafjarðar, þaðan Ljósavatnsskarð og svo til Mývatns og síðan Möðrudalsheiði."

Guðmundur mælti: "Efn orð þín og ríð Ljósavatnsskarð."

Broddi segir: "Efna skal það eða ætlar þú Guðmundur að verja mér skarðið? Allmjög eru þér þá mislagðar hendur ef þú varðar mér Ljósavatnsskarð svo að eg megi þar eigi fara með förunautum mínum en þú varðar það eigi hið litla skarð sem er í milli þjóa þér svo að ámælislaust sé."

Skildust þeir við svo búið og spurðust þessi orð um allt þingið.

En er Þorkell Geitsson varð þessa vís þá gekk hann til fundar við Brodda og bað að hann skyldi ríða Sandleið eða ella hið eystra.

Broddi segir: "Eg mun ríða þá leið er eg hefi sagt Guðmundi því að hann mun virða mér til hugleysis ef eg fer eigi svo."

Þorkell mælti: "Við munum þá ríða báðir saman frændi og flokkur okkar lítill."

Broddi sagði að honum þótti sæmd í föruneyti hans og lést það fjarna vilja.

Síðan ríða þeir Þorkell og Broddi báðir saman með flokka sína norður Öxnadalsheiði. Voru þeir í einni ferð og Einar Eyjólfsson mágur Þorkels. Riðu þeir Borddi og Þorkell til Þverár með Einari og voru þar um nótt. Síðan reið Einar á leið með þeim með fjölmenni mikið og skildust eigi fyrr en við Skjálfandafljót. Reið þá Einar heim en þeir Þorkell og Broddi léttu eigi sinni ferð fyrr en þeir komu austur í Vopnafjörð til búa sinna.

Það sumar fór Þorkell að heimboði til Brodda frænda síns og þá þar allgóðar gjafir. Höfðu þeir þá hina bestu frændsemi með vináttu og hélst það meðan þeir lifðu.

Og lýkur þar sögu Ölkofra.